146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:32]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Kerfisáhætta er orðið sem við eigum að vera að tala um hér. Kerfisáhætta er það þegar margir aðilar reyna að passa sig en hluta þeirra mistekst. Sameiginlega útkoman úr því ef mörgum mistekst á sama tíma er hreinlega sú að kerfið sjálft hrynur. Það er það sem þetta snýst um þó svo að allir reyni auðvitað að passa sig. Það reyna allir að passa sig þegar þeir taka lán. Það reynir enginn að fara á hausinn, í persónulegt gjaldþrot. Það finnst engum eftirsóknarvert. Kerfisáhætta er það þegar okkur tekst ekki sem samfélagi að passa okkur öll á sama tíma.

Það sem við erum að tala um að gera í þessu máli er að opna á elítulán þar sem sumir fá að leika sér á lágvaxtasvæði erlendis í góðu tómi meðan aðrir eru fastir í hávaxtakerfi þar sem enginn griður er gefinn nema maður heiti lífeyrissjóður, fjárfestingarsjóður, vogunarsjóður eða eitthvað svoleiðis. Ef maður er einstaklingur, ef maður rekur lítið fyrirtæki þá þarf maður að sætta sig við hávaxtaumhverfi sem er því miður frekar ömurlegt, nema maður sé þeim mun ríkari einstaklingur. Það er þar sem vandinn liggur.

Það er breytingartillaga frá minni hlutanum sem reynir að bæta ástandið örlítið með því að minnka aðeins kerfisáhættuna með því að krefjast veðs í erlendum eignum þegar verið er að fá lán í erlendri mynt. Það minnkar gatið örlítið sem var búið til í upprunalega frumvarpinu. Þetta frumvarp snýst um að búa til gat, sem vissulega er krafa um að við gerum vegna þess að við erum hluti af EES-samstarfinu, en gatið er rosalega stórt samkvæmt skilgreiningu. Það er ekki jákvætt. Ef við náum að minnka það örlítið er það ágætt en það leysir ekki stóra vandamálið.

Stóra vandamálið er þetta: Krónan, okkar ágæta króna, hentar illa í þetta verkefni í algjörlega frjálsu peningakerfi. Við getum ekki treyst gjaldmiðli sem er á stöðugu iði gangvart öllum viðskiptagjaldmiðlum okkar. Ef þetta væri minni háttar flökt, ef þetta væri smávegis, eins og t.d. danska krónan gagnvart evru, væri þetta ekkert vandamál. En við erum að tala um flökt upp á 17–18%, þetta eru tæplega 18% á síðustu sex mánuðum, frú forseti. Það er frekar mikið flökt fyrir hvaða gjaldmiðil sem er.

Í ofanálag er Seðlabankinn í einhvers konar firringu búinn að ákveða það upp á sitt einsdæmi að hætta að kaupa gjaldeyrisvaraforða. Það er frekar furðuleg ákvörðun vegna þess að gjaldeyrisvaraforðinn er þjóðhagsvarúðartæki sem við notum til þess að einmitt búa okkur undir það að það geti orðið einhvers konar kerfislegt áfall, ekki síst þegar við erum að færa okkur meira og meira út í erlend viðskipti með hina stóru flöktandi krónu okkar.

Ég myndi segja að það væri glysgjörn þjóð sem legði áherslu á jákvæða eiginfjárstöðu samkvæmt einhverjum bókhaldsleikjum en hunsaði öryggið. Glysgirnin er ekki minni þegar við opnum á að óvarðir einstaklingar geti tekið lán í erlendri mynt með þessum hætti.

Ég hef svo sem sagt það áður að ég er alveg hlynntur því að við opnum á þetta að endingu. Það er nauðsyn. Við þurfum að gera það samkvæmt EES-samningnum. En við erum búin að bíða með þetta, við höfum slegið þessu á frest í mörg ár og getum alveg slegið því á frest nokkur ár í viðbót eða þar til við höfum fengið hreint hvaða gjaldmiðil við ætlum að nota til framtíðar eða hvaða fyrirkomulag á gjaldmiðli við ætlum að nota til framtíðar, hvort við getum með einhvers konar úrræðum náð að koma böndum á þetta flökt, reynt að láta krónuna vera stöðuga, sem hún hefur aldrei verið.

Þegar við erum komin í þá stöðu getum við kannski farið að treysta því að einkaaðilar muni ekki fara í einhvers konar leiki á lágvaxtasvæði sínu erlendis og kollsteypa hagkerfinu okkar með því að misnota þær glufur sem við opnum á á Alþingi.

Ég tek undir með hv. þm. Loga Einarssyni þegar hann segir að við verðum að vita meira um það hvaða galdmiðil eða peningakerfi við ætlum að nota til framtíðar áður en við klárum þetta samtal. Við getum slegið þessu á frest á sama hátt og við höfum slegið þessu á frest síðan 2010, sem mig minnir að sé fyrsta árið þar sem krafan var gerð. Við getum tekið þetta frumvarp aftur upp, kannski í haust, kannski haustið þar á eftir, einhvern tímann þegar við erum komin með betri svör. Við getum alla vega ekki rætt um þetta þegar það hefur þegar átt sér stað, eftir að fólk er farið að taka slíkar áhættur á sig — og jú, allir fara að passa sig, en við sem kerfi pössum okkur ekki. Ræðum þetta þá. Ræðum þetta þegar 18% sveiflur á sex mánuðum er ekki raunveruleikinn í hagkerfi okkar. Ræðum þetta þá, en ekki fyrr. Við skulum í allra minnsta lagi samþykkja þessa litlu hóflegu breytingartillögu minni hlutans, en fyrir alla muni, frestum þessu, setjum það á ís. Bíðum með það. Þetta er ekki nauðsynlegt núna. Þetta er vont.