146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[21:52]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um landmælingar og grunnkortagerð.

Hv. þm. Pawel Bartoszek, framsögumaður meirihlutaálitsins, rakti ágætlega í ræðu sinni feril málsins, hvernig til þess kom að kallaðir voru inn gestir á milli 2. og 3. umr. Í sjálfu sér hef ég engu við það að bæta. Við fulltrúar minni hlutans sem skrifum undir þetta álit erum þó þeirrar skoðunar að sú gestakoma hafi engu breytt í málinu og ekki kallað á neitt sérstakt álit. Það þurfti að bregðast við þeim athugasemdum sem þar komu fram þar sem umræddir gestir skiluðu umsögn um málið þegar það var lagt fram á sínum tíma fyrir tveimur árum síðan og það voru engar nýjar upplýsingar sem komu fram á milli umræðna, því var engin ástæða til að tiltaka efnislega eitthvað í málinu. Þetta lá allt saman fyrir, en sjálfsagt að bregðast við og kalla inn gesti vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem hv. framsögumaður meirihlutaálitsins fór yfir í máli sínu.

Í nefndaráliti okkar reifum við þetta ferli. Við tókum málið til umfjöllunar á milli 2. og 3. umr., eins og hv. framsögumaður meirihlutaálitsins fór yfir. Á fundi nefndarinnar reifaði fulltrúi Loftmynda áhyggjur af mögulegum breytingum á stöðu fyrirtækisins við samþykkt frumvarpsins. Nefndin fór yfir þau sjónarmið með fulltrúa ráðuneytisins.

Minni hlutinn sér ekki ástæðu til að reifa frekar þau sjónarmið sem fram komu á fundinum, enda kom þar ekkert nýtt fram sem ekki liggur fyrir, m.a. í umsögnum um málið þegar það var lagt fram á 144. löggjafarþingi, mál 560. Því er engin ástæða til að hnykkja sérstaklega á einhverjum efnisatriðum málsins heldur nægir að vísa almennt í greinargerð frumvarpsins.

Minni hlutinn sér ekki ástæðu til að gera breytingar á frumvarpinu eins og það liggur fyrir og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta rita sá sem hér stendur, hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson og hv. þm. Guðrún Ágústa Þórdísardóttir.

Eins og ég kom inn á í máli mínu og í upplestri á nefndarálitinu voru þetta dálítið sérstakar aðstæður og sem betur fer höfum við ekki þurft að grípa til þessa í öðrum málum á þessu þingi. Ég ítreka það að að mínu viti er ekki nokkur einasta ástæða til þess að gefa út sérstakt framhaldsnefndarálit vegna upplýsinga sem komu fram á fundi hv. umhverfis- og samgöngunefndar í dag. Það átti öllum nefndarmönnum að vera ljóst hvernig málið stæði og vera ljós afstaða þeirra gesta sem komu á fund nefndarinnar. Hún hefur verið ljós í a.m.k. tvö ár, ef ekki lengur, því að þetta mál hefur komið fram áður. En það er gott að það náðist samstaða um að málið yrði samþykkt óbreytt. Við í minni hlutanum styðjum það. Þetta er gott og þarft mál sem mun verða mörgum til hagsbóta þegar það nær fram að ganga.