146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því sem hv. framsögumaður málsins, Nichole Leigh Mosty, nefndi áðan, þ.e. að ef brotalamir eru í þessu frumvarpi eins og það er lagt fram — og það verður samþykkt á morgun — þurfi að laga það. Í jafnréttislaunastefnu Pírata kemur fram — ég held að allir landsmenn, fyrir utan mjög fáa aðila, séu sammála um að launajafnrétti eigi að vera á milli kynjanna — að eftirlitsaðili hafi heimild til að rannsaka launamál fyrirtækja til að leita skýringa á óútskýrðum launamun, en það kom fram í nefndinni að hlutirnir séu ekki alveg í lagi varðandi mat á eftirlitsaðilum og öðrum. Ef brotalamir eru varðandi eftirlit með því að hægt sé að rannsaka launamál fyrirtækja og leita skýringa á óútskýrðum launamun er framsögumaður málsins líklega sammála því að taka þurfi á þeim brotalömum.

Það þarf að stuðla að gegnsæi í launamálum. Eftirlitið er ekki bara einn óháður utanaðkomandi eftirlitsaðili, það eru líka aðilar í fyrirtækinu sem þekkja það miklu betur en eftirlitsaðilarnir, og þeir hafa aðgang að þessum staðli sem mér skilst að eigi þá að vinna að. Það var inni að almenningur ætti að hafa aðgang að þessum staðli. Jafnréttismálaráðherra Þorsteinn Víglundsson vissi ekki að það væri brot á höfundaréttarlögum að hafa það þannig án þess að ræða við Staðlaráð. Málið var ekki alveg nógu vel unnið. Það er skiljanlega verið að drífa sig með það. Þorsteinn Víglundsson, ráðherra jafnréttismála, tók út heiðurinn fyrir þetta á heimsvísu og það væri mjög óþægilegt fyrir hann pólitískt að klára þetta ekki núna. En kannski er allt í lagi að klára málið núna þó að það sé ekki alveg fullunnið ef þá er ljóst að þær brotalamir sem hafa komið fram í nefndinni, og er ekki verið að laga núna, verði lagaðar.

Þá er spurning hvort jafnréttismálaráðherra geti ekki (Forseti hringir.) sagt: Já, þetta er kannski ekki alveg fullkomið en það er gott að gera þetta núna og svo getum við lagað þetta. Og þá ætlar hans egó ekkert að þvælast fyrir því þegar laga þarf ákveðnar brotalamir. Er framsögumaður málsins ekki hlynntur því varðandi þetta?