146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[14:02]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er margt ágætt í þessu máli. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggst ekki gegn því. Við höfum hins vegar varað við því að það er ansi margt óútfært í þessu máli. Það er óljóst hvernig á að framkvæma þær breytingar sem þarna verða heimilar. Það er óljóst hvort með þessu sé verið að takast á við einhvers konar aðgangseyri að náttúrusvæðum. Við óttumst það að með þessu muni ríkisstjórn og hv. stjórnarmeirihluti líta svo á að fjárþörf sveitarfélaganna sé uppfyllt þegar kemur að uppbyggingu innviða vegna fjölgunar ferðamanna. Vegna allra þessara efasemda okkar og þeirrar heildarsýnar sem skortir í þessum efnum þá greiðum við ekki atkvæði um þetta mál.