146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[00:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um stærsta mál ríkisstjórnarinnar á þessu þingi, fjármálaáætlun til fimm ára. Í stuttu máli má segja að við meðferð í fagnefndum þingsins hafi komið fram að forsendur áætlunarinnar eru óljósar. Óháð fjármálaráð skilaði harðri gagnrýni um áætlunina þar sem m.a. er gagnrýnt að áætlunin stangist á við grunngildi laga um opinber fjármál sem og að efnahagsforsendur áætlunarinnar byggist á einsleitum spálíkönum þar sem mjög óljósar forsendur séu gefnar fyrir niðurstöðum efnahagsspárinnar. En stærsta málið að okkar mati í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er samt að áætlunin gerir ráð fyrir því að samneyslan muni fara lækkandi ár frá ári sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Því er þessi áætlun fjarri þeim væntingum sem gefnar voru fyrir kosningar af forsvarsmönnum stjórnarflokkanna um þá uppbyggingu sem fara þyrfti fram í heilbrigðismálum, menntamálum og hvað varðar kjör þeirra hópa sem verst eru settir í samfélaginu, öryrkja og aldraða. Þess vegna leggjum við til að þessari tillögu verði vísað frá.