146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. „Og ekki er fjallað nægilega ítarlega um lífeyrisskuldbindingar“ — [Hlátur í þingsal.] þetta verður klárað. Núverandi fjármálaáætlun er full af götum. Þar í eru margar tölur sem ekki er hægt að útskýra af hverju eru það háar eða lágar miðað við verkefnalistann sem liggur á bak við. Vissulega eru aðstæður þannig að þetta er í fyrsta skipti sem svona er unnið og þetta hefur verið kallað ákveðið rennsli eða æfing. En eins og hv. þm. Ásta Helgadóttir sagði er þetta grafalvarlegt. Þrátt fyrir að þetta sé bara æfing er þarna fremst í fjármálaáætluninni fullt af tölum sem er þá verið að samþykkja og þær tölur eiga að skila sér inn í fjárlögin. Ég hlakka til að sjá þær tölur birtast en ekki miklu hærri tölur eða miklu lægri eða eitthvað svoleiðis án þess að þær séu mjög vel útskýrðar, án þess að það sé mjög vel útskýrt af hverju vikið er frá þeirri áætlun sem (Forseti hringir.) þingið er að samþykkja yfir sjálft sig. Þingið er að skipa ríkisstjórninni að gera fjárlög eftir þessari áætlun, það er ekki ríkisstjórnarinnar að fara gegn ályktun Alþingis.