146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[11:22]
Horfa

Óli Halldórsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Það hefur komið hérna glögglega fram að kjarni málsins er sá að hæstv. dómsmálaráðherra leggur öðruvísi mat á umsækjendur heldur en dómnefndin. Þetta er kjarni málsins. Henni var falið það hlutverk að leggja mat á hæfi umsækjendanna, en það kemur annað mat. Nefndin notar eina aðferð og hæstv. ráðherra aðra. Hæstv. ráðherra leggur svo sitt mál hér á borð Alþingis með afskaplega takmörkuðum rökstuðningi.

Það hefur komið fram að reynsla við dómarastörf ásamt öðrum þáttum vegi þyngra í mati hæstv. ráðherra heldur en gerði hjá nefndinni. Kannski aðrir þættir líka, kom að einhverju leyti fram hér áðan í ræðu hv. þingmanns.

Þannig rökstyður ráðherra inngrip sitt og í því ljósi er grundvallaratriði tímalínan í þessu. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvenær nákvæmlega þessi ákvörðun kom fram. Hvenær tók hæstv. dómsmálaráðherra þá ákvörðun að láta reynslu umsækjanda eða aðra þætti vega þyngra? Hvenær kom þetta fram? Var það í upphafi áður en var auglýst? Var það í miðju ferlinu einhvern tímann? Eða var það eftir á og var það kannski bara eftir á þegar málinu var lokið, umsagnir höfðu borist? Eru til einhver gögn um þetta? Hafa þessi gögn komið fyrir nefndina? Það er grundvallaratriði að við áttum okkur á því fyrir framgang málsins, bæði fyrir umsækjendur sjálfa og eins fyrir dómnefndina sem var að fjalla um málið.