146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

þingfrestun.

[18:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Kæri forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna flytja forseta þakkir fyrir samstarfið á þessu þingi og vinsamleg orð í okkar garð. Forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir, hefur sýnt í verki að hún er fær um að vera forseti allra þingmanna. Henni hefur tekist að halda aga og sýna sanngirni gagnvart okkur öllum þó að kappsemi þingmanna og ráðherra hafi ekki síður verið þrungin ákefð á þessu þingi en öðrum.

Þetta þinghald hefur um margt verið einstakt. Sjaldgæft er að svo margir flokkar eigi fulltrúa á Alþingi sem þýðir auðvitað aukið flækjustig sem auðveldlega hefði getað farið úr böndunum ef ekki sæti hér forseti sem kann að hlusta, bregðast við af sanngirni ef svo ber undir og hefur á sama tíma járnaga ef þörf er á gagnvart okkur öllum og líka framkvæmdarvaldinu sem er ekki sjálfgefið.

Það er líka ómetanlegt að skynja og finna að forsetinn er tilbúinn að hleypa inn í þinghúsið annars konar viðhorfi og vinnubrögðum og færa okkur nær þeim tímum sem við lifum og hrærumst á. Forseti hefur sýnt okkur þingmönnum að hún hefur metnað og sýn á það hvernig Alþingi getur enn betur sinnt sínu lögboðna hlutverki og ég efa ekki að þingmenn allir, hvaðan úr flokki sem þeir koma, muni styðja forseta í því að auka sérfræðiþekkingu innan húss og stuðning við þingflokka til að standa betur að vinnu sinni fyrir land og þjóð.

Forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir, er yngsti forseti lýðveldistímans. Forseta hefur tekist að sýna því skilning hvernig það fer þveröfugt ofan í þingmenn og þá sér í lagi þingmenn minni hlutans ef ósanngirni og óbilgirni er beitt. Það er fátt sem fær þingmenn til að verða eins þrungnir réttlátri reiði og ósanngirni á viðkvæmum stigum mála. Það hafa ekki orðið nærri því eins mörg upphlaup á þessu þingi og oft áður, einfaldlega vegna þess að við ósanngirni eða mistökum er brugðist strax í stað þess að láta hina réttlátu reiði brenna upp í fundarstjórn fyrir allra augum sem satt best að segja er sennilega leiðigjarnasti dagskrárliður Alþingis sem skilar oft og tíðum litlum árangri ef ekki er reynt að leysa hnúta áður en úr böndum fer.

Aldur forseta Alþingis hefur gert það að verkum að þessi forseti er brú á milli kynslóða og það er mikilsvert. En nú vil ég fyrir hönd allra þingmanna færa forseta og fjölskyldu hennar bestu kveðjur. Skrifstofustjóra Alþingis og öllu öðru starfsfólki Alþingis þakka ég einnig frábær og framúrskarandi störf og fúslega veitta aðstoð hvernig sem stendur á hjá þingmönnum hverju sinni og umburðarlyndi gagnvart ákefð okkar oft og tíðum við að setja okkar mál í forgang.

Lifðu heill, forseti. Ég bið þingmenn að taka undir orð mín til forseta með því að rísa úr sætum, kveðjur til fjölskyldu hennar og þakkir til starfsfólks. — [Þingmenn risu úr sætum.]