147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir ræðuna. Mér fundust lokaorðin í ræðunni, lokasetningarnar, alveg óskaplega mikilvægar og ná að draga fram og lýsa ástandinu óskaplega vel, þ.e. að landið sé forríkt en að margir á landinu séu sárafátækir. Þetta er auðvitað svo ömurleg staða að vera í og ber að mínu mati vitni um ekkert annað en að hér sé alveg kolröng pólitík sem hefur verið keyrð á undanförnum árum. Og með henni alveg kolröng forgangsröðun.

Mér fannst líka áhugavert í ræðu hv. þingmanns þar sem hann fjallaði um skuldirnar, þ.e. niðurgreiðslu á skuldum. Þetta er nokkuð sem við höfum rætt talsvert á fyrri stigum, til að mynda þegar við ræddum um fjármálaáætlunina, og lýstum mörg þeirri skoðun okkar að hér væri farið of hratt í að greiða niður skuldir meðan annað væri látið sitja á hakanum.

Hv. þingmaður minntist sérstaklega á persónuafsláttinn í þessu samhengi, að í staðinn væri hægt að hækka hann. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni. Mig langar að spyrja hann: Eru einhverjir fleiri eða aðrir þættir sem hv. þingmaður telur að við ættum að skoða í þessu samhengi? Annað sem við gætum fengið fyrir peningana? (Forseti hringir.) Eða telur hann að það sé algerlega skilvirkasta og besta leiðin sem við getum farið til að ekki allt of margir á landinu séu sárafátækir?