147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svör hans. Mér finnst gaman að hafa tekið þátt í þessum umræðum í dag og heyrt hvað þær eru málefnalegar. Ég held að einmitt með þessum hætti getum við færst svolítið áfram.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann að öðru. Á síðasta ári þeirrar ríkisstjórnar sem hann sat í síðast var sett inn í fjárlög heimild til þess að selja hlut í Landsbanka Íslands. Á þeim tíma var það eini bankinn sem ríkið átti að fullu en nú á ríkið aftur á móti bæði Íslandsbanka allan og hlut í Arion banka, 13% hlut. Nú vitum við það að með því að selja einhvern hluta af því sem ríkið á, rétt eins og kom til greina árið 2013, þá gætum við grynnkað á skuldum. Ég held að til lengri tíma litið, eða þannig hef ég skynjað andrúmsloftið í þessum sal, séu allir sammála um að ekki sé ráðlegt að ríkið haldi á öllu bankakerfinu. Ég myndi vilja heyra hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér að fara í það að selja hluta af þessum bönkum. Ég er ekki að spyrja til þess að koma honum í einhvern bobba heldur vegna þess að ég hef lagt mikla áherslu á þetta. Ég held að það sé gott að þetta gerist í sem mestri sátt og á sama tíma auðvitað að við hugum að hag ríkisins og ríkið fái sem mesta peninga fyrir sinn hlut.