147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[18:46]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Það var nú óskaplega lítið eftir í þessu seinna andsvari hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í.)Það er spurt um það hvort fjárlög styðji þann málflutning sem ég hef hér haldið uppi. Við skulum bara horfa á framkvæmd fjárlaga. Það hefur aldrei verið látið standa á fjárveitingum til Útlendingastofnunar eða kærunefndarinnar til að ýta undir sem skjótasta málsmeðferð, það hefur aldrei staðið á því. Það væri kannski einhver innstæða fyrir orðum hv. þingmanns ef ríkisstjórnin hefði haldið þannig á málum að fjárveitingar til þessara mikilvægu stofnana væru stöðvaðar. Við höfum aldrei farið þá leið. (Gripið fram í.) Við höfum ávallt tryggt þá fjármuni sem hefur þurft til þess að tryggja sem besta málsmeðferð. Það eru engin dæmi um annað. Þannig að allt þetta tal um fjárlög og framkvæmd fjárlaga er bara út í hött.

Síðan er það allt önnur umræða og hefur ekkert með það frumvarp að gera sem hér liggur fyrir þinginu hver ábyrgð Íslands er almennt séð. Hv. þingmaður fer að tala um eitthvert tiltekið stríð sem Íslendingar hafa ekki átt neina beina aðild að. (Gripið fram í.)Ég minnist þess þegar yfirvofandi voru loftárásir á Sýrland og vinstri stjórnin var hér við völd þá hreyfði hún hvorki legg né lið á ráðherrafundi NATO þegar málið kom þar til umfjöllunar og olli nú talsvert miklu uppþoti hér á þinginu. Ef það er það sem hv. þingmaður er að rifja upp (Gripið fram í.) hvernig þau mál lágu fyrir nokkrum árum síðan.

Hér eru menn komnir svo langt, langt út fyrir efnið. Ég hef í mínu máli verið að vekja athygli á að fyrir þinginu liggur mál sem á yfirborðinu virðist vera að taka á einhverjum efnisatriðum, en það er ekkert einasta efnisatriði að finna í málinu og því er beinlínis fylgt eftir með þeim orðum að það eigi eftir að koma í ljós hvort einhverjum (Forseti hringir.) efnislegum breytingum þurfi að koma að.