147. löggjafarþing — 7. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[23:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Nichole Leigh Mosty) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að segja að hafi einhverjum í þingsalnum fundist ég vera orðhvöss í fyrri ræðu vil ég biðja afsökunar á því, því mér var misboðið einu sinni enn í tengslum við málsmeðferð þessa máls og mínar tilfinningar höfðu einfaldlega meira gildi en þau orð sem ég var með á blaði.

Nú stend ég hér sem framsögumaður fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar að flytja nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, málsmeðferðartími.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá dómsmálaráðuneytinu, frá kærunefnd útlendingamála, frá Útlendingastofnun, frá velferðarráðuneytinu, frá Barnaverndarstofu, frá Rauða krossi Íslands, frá ríkislögreglustjóra og frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um útlendinga að því er varðar hvenær umsókn barns um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnislegrar meðferðar og hvenær heimilt sé að veita barni sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum nánari skilyrðum.

Ég mun ekki fara dýpra í þessi bráðabirgðaákvæði þar sem við höfum rætt þetta vel og lengi í dag, en frekar fara yfir meirihlutaálit nefndarinnar.

Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um stöðu barna á flótta og sem umsækjenda um alþjóðlega vernd og mikilvægi þess að tryggja mannréttindi þeirra við meðferð umsókna hér á landi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að börn eigi ekki að þurfa að bíða lengi eftir niðurstöðu um umsókn um alþjóðlega vernd, í óvissu um framtíðina. Við gerð laga um útlendinga var hliðsjón höfð af barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tryggja átti að meðferð umsókna barna yrði í samræmi við ákvæði hans. Brýnt er að tryggja að sáttmálinn og þau réttindi sem honum er ætlað að tryggja séu ávallt lögð til grundvallar við meðferð umsókna barna um dvalarleyfi. Mikilvægt er að börnum og fjölskyldum þeirra verði ekki gert að yfirgefa landið hafi þau verið hér í lengri tíma og aðlagast samfélaginu. Á fundi nefndarinnar kom fram að fyrirliggjandi frumvarp gæti haft áhrif á stöðu um 80 barna og því ljóst að um mikilvæga breytingu er að ræða.

Fyrir nefndinni var rætt um texta í greinargerð með frumvarpinu þar sem áréttaður er sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, samanber 6. tölulið 3. gr. laga um útlendinga. Bent var á að lögskýringargögn væru ekki skýr um þetta atriði og varhugavert geti verið að nýtt þing árétti vilja fyrri þinga án þess að því fylgi breytingar á lögum. Meiri hlutinn bendir á að með þessu er áréttað, líkt og fram kom í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga, nr. 80/2016, að taka skuli til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækt sé að hann fái vernd hér á landi eða ef sérstakar ástæður mæla með því að taka skuli mál til efnismeðferðar. Getur þetta átt við í tilfellum útlendinga sem eiga ættingja á Íslandi en ekki í því landi sem þeir yrðu sendir aftur til. Þetta getur einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuland, svo sem vegna fyrri dvalar. Með sérstökum aðstæðum er vísað til þess að einstaklingar geta verið í viðkvæmri stöðu sem leiði til þess að þeir muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi svo sem vegna heilsufars, aldurs, þungunar eða mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns, eða fyrri reynslu einstaklinga, t.d. fórnarlömb mansals, ofbeldis og pyndinga. Það á ekki vera neinn vafi á því hvað átt er við með sérstakri stöðu.

Meiri hlutinn bendir á að í frumvarpinu er lagt til að breytingarnar taki að sinni aðeins til umsókna sem borist hafa fyrir gildistöku laganna og þar sem um er að ræða ákvæði til bráðabirgða er veitt tiltekið svigrúm til að meta áhrif breytinganna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að nýtt þing taki afstöðu til áhrifa þeirra breytinga sem frumvarpið mælir fyrir um auk þess sem tekin verði til skoðunar ákvæði laganna um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þeirri vinnu þarf að ljúka eins fljótt og auðið er. Brýnt er að huga að því hvernig styrkja megi stöðu barna sem umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi til frambúðar og að framkvæmd laganna verði í sem bestu samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Guðjón S. Brjánsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykkur áliti þessu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið rita Nichole Mosty framsögumaður, Andrés Ingi Jónsson, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Pawel Bartoszek og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Í lokin vil ég ítreka vilja meiri hluta nefndarinnar um að þverpólitísk nefnd verði sett af stað á nýju þingi.

Á fundi hv. allsherjar- og menntamálanefndar með gestum var enn og aftur kveðið á um að lög um útlendinga, nr. 80/2016, þurfi frekari skýringar þar sem ágreiningur um túlkun komi aftur og aftur fram. Einnig kom það fram, sem við töldum vera mikilvægt að við myndum ræða, að helstu sérfræðingar í málefnum barna þurfa að hafa skýra aðkomu hvað varðar málsmeðferðina. Barnaverndaryfirvöld óskuðu eftir því og það kemur skýrt fram í lögum þeirra hlutverk við framkvæmd þessara laga. Meira að segja kom fram að ekkert væri litið til þeirra hvað varðaði börn sem er vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Ég tel það vera mjög alvarlegt mál. Ég læt þetta vera mín lokaorð.