148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Íslendingar hafa skapað sér nafn á alþjóðavísu fyrir afstöðu sína til jafnréttis kynjanna. Hér var fyrsta konan kosin þjóðarleiðtogi í lýðræðislegum kosningum og hefur skýr afstaða til jafnréttis kynjanna upp frá því skapað okkur sérstöðu meðal þjóða heimsins. Íslendingar hafa einnig skapað sér nafn vegna umhverfismála, málefna norðurslóða og loftslagsmála, mögulega að ósekju, en engu að síður höfum við náð að vekja á okkur athygli fyrir þessa skýru afstöðu okkar með náttúrunni. Er því ekki úr vegi að hrósa hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, fyrir að hafa greint svo frá á ráðstefnu í París fyrr í vikunni að Ísland myndi standa við sínar skuldbindingar vegna Parísarsamkomulagsins um kolefnishlutleysi árið 2040. Sú skýra afstaða ríkisstjórnarinnar til loftslagsins er lofsverð.

Ísland hefur einnig tekið skýra afstöðu í réttindamálum samkynhneigðra og verið á margan átt leiðandi í þeim málum sem og þegar kemur að sjálfstæðisbaráttu ríkja, en þar gekk Ísland fremst í flokki er sjálfstæði Eystrasaltsríkja sem og Palestínu var viðurkennt.

Fyrir þessa skýru afstöðu réttindabaráttu hér heima og erlendis sköpum við okkur sérstöðu. Þess vegna vakti það athygli þegar hæstv. forsætisráðherra lýsti afstöðu sinni til þeirrar eldflaugar er Donald Trump Bandaríkjaforseti skaut í hjartastað friðarumleitana milli Ísraela og Palestínumanna á dögunum. Sagði forsætisráðherra ákvörðun Trumps um að lýsa Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels vera „vonbrigði“. Var þetta áréttað í stefnuræðunni í kvöld þar sem þetta var sagt „dapurlegt“.

Íslendingar eru herlaus þjóð — enn þá. Við erum því í kjöraðstæðum til að taka skýra afstöðu með friði og gegn stríði í heiminum, afstöðu gegn valdamiklum körlum sem sækjast í átök og ófrið. Þessi mikli vilji Bandaríkjaforseta til að efna til átaka á þessu svæði er þegar farinn að valda tjóni og grefur undan friðarumleitunum. Helstu þjóðarleiðtogar hafa ýmist fordæmt þessar gjörðir Bandaríkjaforseta eða lýst yfir megnri andúð. En ríkisstjórn Íslands virðist aðallega vera döpur og hafa orðið fyrir vonbrigðum með þessar ákvarðanir Trumps. Þannig virðist þessari stjórn vera það lífsins ómögulegt að taka einarða afstöðu gegn því verki Donalds Trumps sem við fylgjumst nú með.

Það vekur óneitanlega athygli að á sama tíma og fulltrúar íslenskra stjórnvalda taka svona mildilega til orða eru samþykkt lög á Bandaríkjaþingi þess efnis að bandaríski sjóherinn fái sem samsvarar 1,5 milljarða kr. fjárframlagi til að gera endurbætur á flugskýlum Bandaríkjahers hér — á Íslandi. Þessi frétt vekur athygli enda hafði gleymst að kynna landsmönnum að búið væri að heimila hersetu á Íslandi á nýjan leik og það í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Góðir landsmenn. Ríkisstjórnin talar um vonbrigði og dapurleika vegna ákvarðana Donalds Trumps. Ríkisstjórnin kynnti okkur í dag fjárlög sín fyrir komandi ár hvar hún ánafnar sjálfri sér 20 milljónum í viðbótarframlag í kynningarmál fyrir Stjórnarráðið. Þessi ríkisstjórn sem í stjórnarsáttmála talar um loftslag og sókn gegn ofbeldi í miðri #metoo-byltingu ætlar nákvæmlega sömu fjárhæð, 20 milljónir, í þjónustu við þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis, á neyðarmóttökum um allt land sem og í heildarvinnu vegna loftslagsmála á Íslandi. Sama fjárhæð er þannig hugsuð í þessa þrjá þætti: kynningarmál fyrir ríkisstjórnina, þjónustu fyrir þolendur ofbeldis og loftslag. Þetta, góðir landsmenn, er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Þarna birtist hún svart á hvítu.

Svo ég taki orð hæstv. forsætisráðherra mér í munn verð ég að lýsa því yfir hér að þetta eru mér vonbrigði. Ég er einlæglega döpur yfir þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar á hennar fyrstu dögum. — Gleðileg jól.