148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Það þarf sterk bein til að þola góða daga. Þetta máltæki á sérstaklega vel við í dag. Það er á tímum sem þessum sem stærstu mistök okkar í efnahagsstjórn hafa verið gerð. Við Íslendingar eigum raunar fjöldann allan af málsháttum er hvetja til varfærni. Í upphafi skyldi endinn skoða. Göngum hægt um gleðinnar dyr. Sígandi lukka er best. Stjórnmálamenn grípa gjarnan til þeirra á tyllidögum en hlusta lítið á þau varnaðarorð sem í þeim felast.

Við Íslendingar búum um margt við öfundsverða stöðu um þessar mundir. Efnahagslífið er í miklum blóma, kaupmáttur hefur aldrei mælst hærri og tekjujöfnuður sjaldan meiri. Fjárhagsstaða hins opinbera hefur notið góðs af þessari þróun og útgjöld til velferðar- og menntamála hafa verið aukin verulega, skuldir ríkissjóðs greiddar niður og fjárfesting í innviðum aukin. Vissulega eru ærin verk óunnin en þetta verður að teljast góður árangur þegar horft er til stöðunnar fyrir tæpum áratug.

Margt hefur lagst með okkur og margt verið vel gert á þessum tíma. Eins og margoft hefur sýnt sig erum við sem þjóð talsvert betri í að koma okkur út úr ógöngum en að forðast að rata í þær.

Virðulegi forseti. Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er um margt ágætur enda margt kunnuglegt þar á ferð frá fyrri ríkisstjórn. Fagna má áframhaldandi forgangsröðun velferðarmála og áherslu á jafnréttismál. En það er mun áhugaverðara að sjá hvað ekki er rætt um í þessum stjórnarsáttmála. Breytingar eru þar til að mynda ekki ofarlega á baugi. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa neina sjálfstæða skoðun á óstöðugri mynt eða háu vaxtastigi. Lítið er rætt um mögulegar umbætur í sjávarútvegi eða landbúnaði og ekkert er þar að finna um hvernig efla megi samkeppni eða bæta hag neytenda. Þar víkja hagsmunir almennings fyrir sérhagsmunum.

Þrátt fyrir góðan árangur okkar á ýmsum sviðum er frammistaða okkar ekki alls staðar jafn glæsileg. Við erum með þriðja hæsta vaxtastig OECD-ríkjanna, þriðja hæsta matvælaverðið og við vinnum lengur en allar okkar samanburðarþjóðir. Íslenska hagkerfið er líka margfaldur methafi í óstöðugleika. Verðbólga hefur verið hér viðloðandi vandamál og krónan okkar tapar stórum hluta verðgildis síns með reglulegu millibili með tilheyrandi tjóni fyrir fyrirtæki og heimili. Þetta eru stærstu áskoranir íslensks samfélags. Þetta er ástæða þess að við þurfum að hafa mun meira fyrir hlutunum en samanburðarþjóðir okkar. Fátt ef nokkuð gæti bætt kjör íslenskra heimila meira en aukinn efnahagslegur stöðugleiki ásamt lækkun vaxtakostnaðar og matvælaverðs.

En það eru ekki bara heimilin sem líða fyrir þennan óstöðugleika. Fyrirtækin þurfa líka að glíma við hann á hverjum degi. Í stjórnarsáttmálanum er lýst áhyggjum af versnandi samkeppnisstöðu útflutningsgreina okkar en hins vegar er fátt kynnt af lausnum á þeim vanda. Breytingar munu á komandi árum verða hraðari en við áður höfum kynnst og þær munu grundvallast á þekkingariðnaði. Íslenskur þekkingariðnaður hefur átt undir högg að sækja vegna óstöðugs rekstrarumhverfis. Við vitum að þegar horft er til framtíðar liggja þar okkar stærstu tækifæri. Því skiptir samkeppnisstaða þessara fyrirtækja okkur sköpum. Þar leika stöðugur gjaldmiðill, samkeppnishæft vaxtastig og góð hagstjórn lykilhlutverk.

Ríkisstjórnin hefur því miður ekkert fram að færa varðandi gjaldmiðilinn eða vextina. Stefna hennar í ríkisfjármálum vinnur beinlínis gegn ábyrgri hagstjórn og grefur þannig undan samkeppnisstöðu okkar. Ríkisstjórnin býður upp á baneitraðan kokteil skattalækkana og útgjaldaaukningar á hápunkti hagsveiflunnar. Slík stefna í ríkisfjármálum gengur þvert gegn öllum varnaðarorðum Seðlabanka og annarra sérfróðra aðila og þvert gegn dýrkeyptri reynslu síðustu efnahagsuppsveiflu. Hér skortir því miður alla framtíðarsýn.

Djúpar rætur efnahagslegs óstöðugleika liggja í óábyrgri efnahagsstjórn undangenginna áratuga, áratuga undir stjórn þeirra flokka sem enn á ný stýra landinu. Þó svo að staða okkar sé góð í dag er þar ekki á vísan að róa. Það er sorglegt að sjá að hér virðist eiga að endurtaka sömu mistök og fyrr.

Virðulegur forseti. Það þarf sterk bein til að þola góða daga.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á næsta ári. — Góðar stundir.