148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[22:05]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Þau verkefni sem heyra undir málaflokk félags- og jafnréttismála eru mörg. Þau eru vandasöm og varða flest að einhverju leyti stöðu viðkvæmra hópa í samfélaginu. Ég mun nálgast þau verkefni sem undir þetta embætti heyra af virðingu og alúð. Fyrir þá hópa sem heyra undir þetta ráðuneyti eru boðaðar úrbætur og aðgerðir til að bæta stöðu þeirra á margvíslegan hátt.

Í stuttri ræðu sem þessari er ekki hægt að fara yfir mörg mál. Það sem er mér efst í huga eru aðstæður barna sem búa við erfiðar aðstæður af ýmsum ástæðum. Börn sem líða skort vegna fátæktar, sem þjást vegna áfengissýki foreldra sinna eða annarra geðrænna vandamála, börn sem búa við ofbeldi á heimili sínu, börn sem af þessum eða öðrum ástæðum eiga erfitt og þarfnast hjálpar.

Velferðarkerfi okkar verður að grípa inn í fyrir þessi börn til þess að þau tapi ekki þeim mikilvægu og jákvæðu hlutum sem fylgja bernskunni. Ég vil gera það sem í mínu valdi stendur til að bæta stöðu þessara barna og efla úrræði velferðarkerfisins í þeirra þágu.

Við heyrum um þunglyndi sem vaxandi vandamál einkum hjá ungmennum og ungu fólki. Heimurinn er breyttur. Hraðinn er mikill og það er miklu minni nánd í samskiptum fólks en áður var. Fleiri eru félagslega einangraðir og einmana. Brotthvarf eykst úr skóla og ungu fólki sem fær örorkulífeyri fjölgar og algengasta ástæða örorku ungs fólks er geðrænn vandi. Samfara þessari þróun fækkar þeim sem eru virkir þátttakendur samfélagsins og þátttökuleysinu fylgja ýmis vandamál og skert lífsgæði. Er þetta afleiðing þess að velferðarkerfið hefur ekki passað börnin okkar?

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Til að ýta undir félagslega þátttöku og draga úr einangrun þarf að færa áhersluna frá því að bregðast við þegar skaðinn er skeður yfir í forvarnir og snemmtæka íhlutun með sérstakri áherslu á að styrkja fjölskyldur og börn. Þarna þarf kerfisbreytingu.

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar eru rúmlega eitt þúsund manns á aldrinum 18–30 ára skráðir í atvinnuleit. Þessi hópur ungs fólks er rúmlega fjórðungur allra atvinnuleitenda. Ég spyr sjálfan mig að því: Af hverju er allt þetta unga fólk ekki virkir þátttakendur á vinnumarkaði þegar fjöldi starfa er í boði? Við verðum að horfast í augu við þær áskoranir og spyrja hvað vantar. Eru það fleiri störf, fleiri námsúrræði, öflugri starfsþjálfunarúrræði eða kannski bara eitthvað allt annað? Þetta þurfum við að skoða og leggja áherslu á.

Góðir landsmenn. Í stuttri ræðu eins og hér gefst lítið svigrúm til umfjöllunar um þau mörgu mál sem heyra undir ráðuneyti félags- og jafnréttismála. Ég vil samt geta um það svo það sé alveg skýrt að ég mun setja úrbætur í húsnæðismálum mjög ofarlega á dagskrá. Síðast en ekki síst er algjört forgangsmál, líkt og hæstv. forsætisráðherra kom hér inn á, að tryggja jafnrétti kynjanna hvort sem er á vinnumarkaði eða öðrum sviðum samfélagsins. Kynbundin mismunun, áreiti eða ofbeldi, er sennilega enn stærra og alvarlegra vandamál en margir héldu. Um það vitna þau fjölmörgu dæmi sem fjallað hefur verið um að undanförnu undir merkjum átaksins #metoo.

Góðir landsmenn. Ég hlakka til samstarfs við Alþingi, við þingheim allan, við þá sem undir þetta ráðuneyti heyra og landsmenn alla. — Góðar stundir.