148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á erfitt með að svara þessum almennu athugasemdum með því að brjóta svar mitt upp í einhverja liði. Hér er því haldið fram að fjárlagafrumvarpið og áherslur ríkisstjórnarinnar endurspegli ekki stefnu míns flokks. Það er bara upplifun hv. þingmanns sem hann verður að lifa með og ég verð að sætta mig við. En staðreyndin er sú að þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst stefna míns flokks og aðkoma okkar að ríkisstjórn umfram allt um eitt, sem er að bæta lífskjör hins venjulega vinnandi manns hér í landinu. Og það hefur tekist vel. Það hefur tekist vel á hverju einasta ári og fjárlagafrumvarpið ber það með sér að kjörin munu halda áfram að batna á næstu árum; að við erum að skapa svigrúm með efnahagslegum stöðugleika og kraftmiklu atvinnulífi til þess að styrkja innviðina, reisa betra vegakerfi, reka traustari heilbrigðisþjónustu um allt land; að setja aukið fjármagn í heilsugæslu til tækjakaupa á sjúkrastofnunum um land allt; með auknum framlögum til menntamála. Um það snýst stefna Sjálfstæðisflokksins meðal annars, ef hv. þingmaður hefur ekki áttað sig á því.

Og þegar talað er um álögur þá höfum við verið, eins og rakið er í fjárlagafrumvarpinu, að lækka álögur, bæði á vinnandi fólk og á atvinnustarfsemi á undanförnum árum. Við boðum frekari aðgerðir, en þær verða að samræmast markmiðum um stöðugleika. Við ætlum ekki að fórna stöðugleikanum fyrir afmörkuð stefnumál Sjálfstæðisflokksins eða samstarfsflokka okkar í þessari ríkisstjórn. Það verður ekki gert vegna þess að þegar upp er staðið er ekki verið að vinna að langtímahagsmunum þjóðarinnar með slíku.