148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í umræðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er gjarnan vísað til mikilvægis stöðugleika, mikilvægis ábyrgðar í ríkisfjármálum, mikilvægis þess að bæta lífskjör landsmanna. Það gleymist gjarnan í þeirri umræðu að stór hluti lífskjara þessara sömu landsmanna byggir á þeim skilyrðum sem hér eru, hvernig okkur tekst í ábyrgri hagstjórn að skapa lægra vaxtastig, stöðugt efnahagsumhverfi til langs tíma.

Heimilin hafa í gegnum árin og áratugina orðið fyrir hvað mestum búsifjum í óstöðugleikanum, vaxtakostnaðinum, gengisfellingunum sem óábyrgri fjármálastjórn og óábyrgri hagstjórn hefur fylgt. Þetta er gjarnan lítið talað um. Það er auðvelt að mæla árangur stjórnmálamanna í að auka útgjöld, hækka framlög til einstakra þátta í rekstri ríkissjóðs, en talsvert erfiðara að mæla árangur þeirra þegar kemur að einmitt þessum mikilvæga þætti, hagstjórninni.

Í umræðum um fjármálastefnu síðustu ríkisstjórnar sagði hæstv. fjármálaráðherra, þá forsætisráðherra, að ef menn gætu verið sammála um eitthvað væri það að sennilega væri aðhald þeirrar fjármálastefnu of lítið við þær kringumstæður sem nú eru, það þyrfti helst að vera meira. Síðan þá hafa hagvaxtarspár verið hækkaðar og varnaðarorð ítrekuð frá Seðlabanka og öðrum sérfróðum aðilum um mikilvægi aðhaldsstigs í ríkisfjármálum.

Því langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað skýrir þessi sinnaskipti þegar nú er slegið í klárinn, útgjöld aukin enn frekar og boðað í ríkisfjármálastefnu að aðhaldsstig ríkisfjármálanna skuli minnkað verulega á komandi árum?