148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Fyrir kosningar gáfu Píratar út skuggafjárlög, þ.e. settu á blað, miðað við nýútgefið fjárlagafrumvarp, hvernig við myndum vilja sjá útgjöld ríkisins til málefnasviða fjárlaga og hverju við myndum vilja bæta við í tekjuöflun. Mér finnst áhugavert að bera þetta fjárlagafrumvarp saman við skuggafjárlög Pírata. Samkvæmt tillögum Pírata væru heildarútgjöld um 11 milljörðum hærri, heildartekjur um 2 milljörðum hærri og heildarafgangur því um 9 milljörðum lægri. Og væri afgangurinn samt ansi mikill eða um 26 milljarðar. En hverju munar?

Píratar lögðu meðal annars fram hálfum milljarði meira í nýsköpun en gert er í þessu fjárlagafrumvarpi, um milljarði meira í samgöngumál til að ná að fullfjármagna samgönguáætlun árið 2019, 300 milljónum meira í uppbyggingu í ferðaþjónustu, tæpum 1,5 milljörðum meira í sjúkrahúsþjónustu, 1,7 milljörðum meira í örorkubætur og málefni fatlaðs fólks, 400 milljónum meira í fjölskyldumál og heilum 12 milljörðum meira í húsnæðisstuðning, en allir vita að þar er tafarlausra aðgerða þörf. Vandinn á húsnæðismarkaði er gríðarlega alvarlegur; það sjá Píratar og leggja til lausnir.

Á nokkrum málefnasviðum gerir fjárlagafrumvarpið betur en skuggafjárlög Pírata. Það er ekki nema sanngjarnt að veita því sem vel er gert athygli. Þar má nefna um 900 milljónum hærra framlag í menningu, listir og íþrótta- og æskulýðsmál, 700 milljónir aukalega í háskólastigið, 800 milljónir aukalega í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, 1,8 milljarða í lyf og lækningavörur og að lokum 1,4 milljarða í málefni aldraðra. Það verður þó að bæta við að samkvæmt skuggafjármálaáætlun Pírata átti að bæta við 2 milljörðum í málefni aldraðra og heilbrigðisþjónustuna utan sjúkrahúsa og svo 1 milljarði í háskólastigið og lyf- lækningavörur árið 2019 ásamt ýmsum viðbótum á öðrum málefnasviðum. Það fer ansi nálægt þar.

Allt þetta var metið sem raunsæjustu kosningaloforðin af sérfræðingum sem fóru yfir kosningaloforð allra flokka fyrir kosningar. Til þess að setja til dæmis menntamál í samhengi í þessu öllu saman er markmiðið að ná meðaltali OECD árið 2020. Samhengið er að Ísland er hins vegar langt fyrir ofan meðaltal OECD í landsframleiðslu og meira að segja fyrir ofan meðaltal Norðurlandanna. Það er því undarlegt markmið að stefna alla vega ekki þangað sem við erum í landsframleiðslu miðað við OECD-ríkin, að við náum alla vega því sæti.

Ég fletti upp í fylgiritinu þar sem lagt er til árið 2019 1,7 milljörðum meira í háskólastigið, ekkert í framhaldsskólastigið og síðan ekkert árið 2020. Ég velti fyrir mér hvort þá verði búið að ná markmiðum, meðaltali OECD, árið 2019 miðað við þau framlög sem verið er að setja fram í fylgiritinu.

En þótt mér finnist þetta fjárlagafrumvarp ekki alveg eins gott og skuggafjárlög Pírata, aðallega út af húsnæðismálunum, er það nokkuð nálægt því sem við Píratar lögðum upp með í kosningabaráttunni. Því verð ég að gefa þessu frumvarpi létt hrós; nokkuð gott bara. En að sjálfsögðu get ég ekki annað en fordæmt hversu mikið á að draga lappirnar í húsnæðismálum. Á meðan einn Íslendingur þarf að gista á tjaldstæði eigum við að skammast okkar. Það eru einfaldlega borgararéttindi að hafa þak yfir höfuðið á Íslandi. Það þarf að byggja húsnæði núna.

Mig langar að ljúka þessum kafla um skuggafjárlögin með því að hvetja aðra flokka til að gera það að vana sínum að gefa út eigin skuggafjárlög. Það getur hver og einn flokkur gert út af fyrir sig, sérstaklega fyrir kosningar, eða jafnvel nokkrir flokkar lagt saman sameiginleg skuggafjárlög. Hver hefur sína hentisemi hvað það varðar. Til þess að gera það auðveldara mun ég vinna að því innan fjárlaganefndar, og eftir tilvikum með tillögum og frumvörpum hér á þinginu, að fjármálaráðuneytið gefi út nokkurs konar kostnaðarfjárlög á hverju vori. Þau fjárlög myndu innihalda upphæðir um fastan rekstrarkostnað, svo sem leigu og laun, samningsbundin verkefni og annað sem breytist ekki svo auðveldlega á komandi fjárlagaári. Einnig væru tekjurnar áætlaðar og aðstoð gefin við að útfæra hugmyndir einstakra flokka í tekjuöflun. Einnig eiga upplýsingar um helstu verkefni að vera aðgengilegar og kostnaðarmetnar. Þannig gætu allir, ekki bara stjórnmálaflokkar heldur allir í landinu, búið sér til sín eigin fjárlög. Útkoman úr því yrði nokkuð nákvæm. Föst útgjöld verða þekkt, tekjur þekktar, upplýsingar um komandi verkefni þekktar og síðast en ekki síst verður sundurliðun á grunnrekstrarkostnaði ríkisins mun aðgengilegri og það myndi gera allt eftirlit með því hvernig almannafé væri varið mun nákvæmara og skilvirkara. Kostir þessa fyrirkomulags eru ótvíræðir, bæði fyrir þing og þjóð.

Aðeins um lög um opinber fjármál. Hér er ágætlega farið yfir hagræna flokkun gjalda, sem ég kvartaði dálítið undan síðast í fjármálaáætlun og fjárlögum. Næstu skref í þeim málum væri síðan að sundurliða og flokka rekstrargjöldin aðeins betur í þau föstu verkefni sem hið opinbera sinnir. Ég hlakka til að sjá þróun í þeim verkefnum.

Varðandi fjármálastefnuna þá er sagt í fjárlagafrumvarpinu að fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2018 byggi á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem sé lögð fram samhliða frumvarpinu og nái yfir tímabilið 2018–2022. Ég verð að gera alvarlega athugasemd við þetta. Fjárlagafrumvarp á að fylgja stefnu en ekki bara vera samhliða. Ef fjárlagafrumvarpið fer eftir ósamþykktri fjármálastefnu og ákvörðun og áætlunin líka, þar sem áætlunin á að fylgja stefnunni, skortir okkur þingmenn til dæmis gögn og álit um stefnuna sem fjárlög byggja á, gögn um umfang, afkomu og þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga og svo greinargerð um hvernig grunngildum er framfylgt. Og svo auðvitað álit fjármálaráðs á öllu þessu.

Við þingmenn erum kjörnir á þing til að fylgja sannfæringu okkar samkvæmt stjórnarskrá. Þingmenn virðast fullkomlega upplýstir um þetta miðað við þær stefnuræður sem voru fluttar í gær. Þar var minnst oftar en einu sinni á sannfæringu þingmanna. Þar sem þingmenn eru hins vegar ekki upplýstir um það hvaða efnislegu áhrif fjármálastefna núverandi ríkisstjórnar, þessi sem er lög fram samhliða, kemur til með að hafa getum við ekki tekið upplýsta ákvörðun. Við erum ekki kjörin út á sérfræðiþekkingu okkar í að geta greint fjármálastefnu. Við treystum á að geta fengið álit sérfræðinga á þessum málum til þess að við getum tekið upplýsta ákvörðun samkvæmt okkar sannfæringu. Hvað er að gerast hérna samkvæmt núgildandi fjármálastefnu? Samkvæmt núgildandi fjármálastefnu á að greiða niður skuldir, eins og það er orðað í fjármálastefnunni:

„Stefnumið um að öllum óreglulegum tekjum ríkissjóðs og öðru einskiptisinnstreymi fjár verði varið til lækkunar á skuldum eða lífeyrisskuldbindingum.“

Nákvæmlega hvað teljast vera óreglulegar tekjur er ekki frekar útskýrt en það geta til dæmis verið veiðigjöld og arðgreiðslur miðað við hvernig þær hafa rokkað upp og niður undanfarin ár.

Hérna er ýmislegt. Talað er um hvernig búið er að lækka tillögur til heildarafkomu, sem átti að vera 1,5% af ríkissjóði miðað við verga landsframleiðslu en er bara 1,2% í þeirri fjármálastefnu sem er lögð hér meðfram. Þar eiga sveitarfélög að skila 0,2% en ekki 0,1% eins og gert var ráð fyrir í núgildandi fjármálastefnu. Það er samkvæmt samkomulagi sem fjármálaráðherra segir mér að hafi verið gert um síðustu helgi. Þetta þykir mér áhugavert. Þegar við fórum yfir núgildandi fjármálastefnu þótti það harla ólíklegt að sveitarfélög myndu ná að skila þessu 0,1%. Eitthvað gæti hafa breyst. Auðvitað ber þá að hafa í huga að hvert 0,1% telur um 2,7 milljarða og miðað við umræður um fjármál sveitarfélaganna á undanförnum árum verður maður að spyrja: Hvað hefur breyst?

Á bls. 135 er talað um breytingar á útgjöldum á fjármálaáætlun. Þar er talað um 10,3 milljarða í ný og aukin framlög, svo eru einhver frumgjöld 14,3 milljarðar og svo er talað um áherslumál ríkisstjórnarinnar upp á 12 milljarða. Á einhvern undarlegan hátt blandast þetta saman við að það hafi verið breyttar fjárheimildir vegna útgjaldamála sem lágu ekki fyrir við gerð fjármálaáætlunarinnar upp á 13,6 milljarða. Þessar tölur passa ekkert saman. Ég veit ekkert hvaðan þær koma eða hvað af þessu eru áherslumál ríkisstjórnarinnar og hvað uppreiknað. Þetta er voðalega flókið og erfitt að fara yfir þetta, sérstaklega á þeim stutta tíma sem við höfum.

Hér er margt sem ég hefði viljað tína til en hef ekki tíma til því að þetta er að verða búið. Ég verð að koma að því seinna. Ég vildi benda á það í lokin að mér finnst pínu kaldhæðnislegt það sem verið var að gera um daginn, taka lán í evrum. Mér finnst dálítið kaldhæðnislegt að stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna sé að taka evrulán. Ég fatta eiginlega ekki af hverju, sérstaklega miðað við að í (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpinu erum við með rosalega hátt raungengi. Það væri örugglega sniðugra að nýta þá eitthvað af krónunum eða gjaldeyrisvaraforðanum til að vinna í þessu. En meira seinna, verður það víst að vera, því að þetta er langt og leiðinlegt mál að vinna á stuttum tíma.