148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að byrja á, þótt hér séu ekki margir nýir þingmenn í sal, að óska þeim þingmönnum sem eru nýir á þingi til hamingju með sæti sitt. Að sjálfsögðu vonast ég eftir góðu samstarfi við þau öllsömul. Þetta er skemmtilegt starf. Það er alltaf gaman að kynnast nýju fólki á nýjum vettvangi. Ég held að við eigum mikla möguleika á að geta náð saman á breiðum grunni í mjög mörgum málaflokkum. Ég tel það til bóta.

Í þessu fjárlagafrumvarpi eru auðvitað tekin góð fyrstu skref. Ég sagði fyrir kosningar, þegar við vorum að ræða við kjósendur hvað það væri sem við vildum gera, að það væri alveg ljóst, alveg sama hver tæki við völdum eftir kosningar, að það yrði aldrei allt leyst á fyrsta ári. Það er svo sannarlega hægt að segja að ekki er allt leyst í þessu fjárlagafrumvarpi. En ég held að þetta séu góð fyrstu skref.

Mér sýnist margur í stjórnarandstöðunni líta misjafnt á frumvarpið. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talar um að Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekkert í frumvarpinu, ekkert í stjórnarsáttmálanum, meðan hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson talar um að Vinstri græn hafi algerlega lúffað fyrir Sjálfstæðisflokknum og eigi sáralítið eða ekkert í því. Það er alveg ljóst að misjöfn er sýn manna á bæði sáttmálann og frumvarpið. Það er bara eðlilegt.

Heildarútgjöldin eru áætluð í kringum 800 milljarðar á næsta ári. Af þeim fara rúmlega 200 í heilbrigðismálin og annað eins í félags-, húsnæðis- og tryggingamálin. Við erum að auka samneysluna, ætlum að gera það. Það kemur auðvitað enn skýrar fram í ríkisfjármálaáætluninni. Í þessu fjárlagafrumvarpi er stefnubreyting frá síðustu umræðu sem við áttum um fjárlög. Við erum að bæta í og styrkja samfélagslega innviði. 15 milljarðar, þótt margur vildi sjá meira, þar á meðal ég, eru miklir peningar. Við setjum í forgang það sem kallað var eftir, a.m.k. þegar ég var að ræða við kjósendur, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, samgöngumálin, úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis, máltæknin sem við setjum töluverða peninga í o.s.frv. Þetta er auðvitað bara brot.

Við töluðum líka um eldra fólk, kjör þess og aðstæður, og öryrkja. Ég reyndi af fremsta megni að spyrða þá hópa ekki saman því það er gjarnan gert og það er ekki endilega eðlilegt. Örorkulífeyrisþegar hafa dregist aftur úr. Það vitum við. Það er ekkert launungarmál. Við viljum gera úrbætur á því í góðu samræmi við hagsmunasamtök þeirra. Það kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Það þarf að gera breytingar á bótakerfunum. Við ætlum að eiga samtal við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp því þau hafa jú kallað eftir að eiga beint samráð við stjórnvöld án þess að hafa fleiri við borðið eins og var kannski búið að reyna.

Við höfum líka sagt að það sem var sett á oddinn af hálfu eldri borgara var að hækka frítekjumarkið. Það er gert núna. Það er eitt af þessum fyrstu skrefum. Það er ekki eins og allt sé búið þegar þetta frumvarp verður vonandi að lögum fyrir áramótin. Þetta eru bara fyrstu skref.

Við ætlum að endurskoða húsnæðismálin, þ.e. stuðning hins opinbera, eins og kom fram hjá formanni VG áðan í andsvari, þannig að hann nýtist betur ungu og tekjulágu fólki. Sú sýn mun birtast í ríkisfjármálaáætlun okkar. Við þurfum tíma til að sjá það fyrir okkur, við höfum talað um að sá stuðningur hafi ekki nýst eins og við hefðum viljað gagnvart þeim sem við hefðum viljað að hann nýttist best. Þess vegna þurfum við að hafa andrými í sameiningu til þess að finna út hvaða leið mun henta best. Það þýðir ekki að því sé vísað inn í einhverja framtíð sem er ekki á næstu grösum. Það er auðvitað ekki hægt að bíða neitt sérstaklega lengi eftir því.

Hér hefur verið talað töluvert um barnabæturnar. Það sem þar er að breytast er að verið er að færa viðmiðunarfjárhæðir til sem verður þess valdandi að ekki verður afgangur eins og því miður hefur orðið af þessum lið undanfarin ár. Þessir fjármunir ganga út. Hefði ég viljað setja meira í það? Já, alveg örugglega, það er ekki spurning. Eins og svo víða annars staðar hefði ég viljað setja meiri fjármuni í það.

Við erum auðvitað í samstarfi. Við þurfum að hafa tíma til að finna út úr því hvernig við náum fram öllum okkar helstu áherslum í sameiningu. Ég held því miður að ég upplifi það ekki að einhvern tímann verði lagt fram fjárlagafrumvarp sem öllum líkar, hvort sem er hér inni eða úti í samfélaginu. En það má ekki gleyma að það sem við erum að gera, hvort heldur er í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, það sem gert er til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og annað slíkt, gagnast öllum, líka þeim sem lakast standa í samfélaginu. Það er auðvitað partur af þeim innviðum sem við viljum byggja upp og eigum að gera.

Geðheilbrigðisþjónustan er mál sem var gríðarlega mikið rætt í kosningabaráttunni og undanfarin ár. Það var eiginlega í forgangi hvar sem ég kom á fundi og sagt: Þið verðið að gera eitthvað í geðheilbrigðismálum. Það erum við að gera. Setja aukna fjármuni í geðheilbrigðismálin. Það er mikilvægt.

Virðulegi forseti. Hér er auðvitað margt sem vantar eins og ég segi. Við erum samt að setja inn töluvert mikla fjármuni sem við getum verið stolt af, hvort sem það eru 400 milljónir vegna kynferðisbrota eða 1.700 milljónir til umhverfismála eða hvað það nú er. Við erum samt sem áður að greiða niður skuldir áfram og ætlum að gera það. Það er ábyrgt að gera slíkt. Það er ekki eins og ekki sé hægt að gera eitt án þess að gera annað eins og ég hef gjarnan sagt í þessum ræðustól. Það er það sem við erum að reyna að gera. Ég hef líka sagt að ef ekki er hægt núna þegar vel árar í ríkisbúskapnum að reyna að byrja að spýta inn í innviðina sem eru búnir að vera í svelti mjög lengi, reyna að koma til móts við fólk hvar sem það stendur í samfélaginu, þá er það aldrei hægt. En það verður ekki gert í einu skrefi, það er alveg ljóst. Þess vegna verða einhverjir fyrir vonbrigðum. En ég vonast líka til þess, þar sem ég sit nú í fjárlaganefnd, eina konan í fjárlaganefnd í illa skiptu þingi, að við náum að gera einhverjar breytingar á frumvarpinu. Ég held að það sé nauðsynlegt. Það er ekki óeðlilegt að ætla að eitthvað hafi fallið milli skips og bryggju eins og sagt er þegar unnið er svona hratt. Hvort það eru að margra mati litlir hlutir eða stórir sem við komum okkur saman um í fjárlaganefnd að gera veit ég ekki. En alla vega tel ég að við þurfum að taka til skoðunar ýmsa þætti. Við fáum öll ýmislegt sent og ýmsar ábendingar um eitt og annað. Ég held að við þurfum að taka sumt af því sem við treystum okkur til að gera núna til athugunar.

Ég held að ég þurfi ekki að segja miklu meira um þetta. Ég er eins sátt og ég get orðið við þetta frumvarp miðað við þær aðstæður sem við stóðum frammi fyrir í að vinna það. Það tók auðvitað skamman tíma, allt of skamman. En ég held að það batni í meðförum þingsins og að við sjáum til þess að við afgreiðum fyrir jólin ásættanlegt fjárlagafrumvarp þótt það verði aldrei svo öllum líki. Hér verður aldrei lagt slíkt frumvarp fram, því miður. Ég er jákvæð og ánægð með að við erum þó að ná að bæta í þótt sumum finnist þetta vera smáaurar.