148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Lengi er hægt að togast á um það hver fyrstu skrefin eigi að vera og okkur greinir ekki endilega á um það, mig og hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Ég hefði viljað gera betur mjög víða. Ég ætla ekki að neita því.

Það liggur alveg fyrir og það er rétt hjá hv. þingmanni þegar hún segir að ég hafi staðið hér og gagnrýnt fyrra frumvarp. Það er svo. Ég segi það samt sem áður varðandi barnabæturnar sérstaklega, og því getur þingmaðurinn ekki neitað, að viðmiðunarfjárhæðirnar eru hækkaðar í rúmlega launavísitöluna í stað verðlags, eins og við þekkjum — og hvers vegna verið hefur afgangur áður. Milljarðurinn verður þá til útgreiðslu núna og það ferli sem verið hefur í gangi undanfarið er stöðvað. Það er skilningur minn á þessum þætti í fjárlagafrumvarpinu, samkvæmt textanum sem þar er ritaður.

Stefnt er að því að lækka greiðsluþátttöku, hvort sem það gerist á einu bretti eða hvað. Það gerist ekki þannig. Ég skal játa það fyrir hv. þingmanni að ég var ekki búin að lesa þá tölu nákvæmlega sem hún nefnir hér, þ.e. að þessar 560 milljónir séu vegna aukinnar gjaldheimtu af okkar veikasta fólki. Það er þá eitthvað sem við getum skoðað, finnst mér. Það er t.d. eitt af því sem fjárlaganefnd getur skoðað ef það er þannig og hvort við getum breytt því strax með einhverjum hætti.

Það er mjög margt sem ég hefði sjálf viljað gera öðruvísi. Ég vík samt sem áður ekki frá því að ég er ánægð með þá 15 milljarða sem hér er verið að bæta við og hvar þeir lenda. Það hefði verið hægt að bæta meiru við, eins og hér hefur verið nefnt, það er hægt að gera hlutina með ýmsum hætti. En ekki er hægt að horfa fram hjá því að málstaður okkar, minn og hv. þingmanns, varðandi það með hvaða hætti fénu er ráðstafað, fékk bara allt of lítinn stuðning kjósenda.