148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka seinna andsvar hv. þingmanns. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kemur í raun að þeim ramma sem lög um opinber fjármál eru. Breyttir tímar, breytt verklag og breytt umgjörð gefa tilefni til að vinna af meiri festu, með meiri langtímahugsun.

Það er alltaf hætta á að maður taki of sterkt til orða varðandi þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið, en það var innan ramma þeirrar lagaumgjarðar sem þá var. Það tengist kannski pólitíkinni og við berum líka ábyrgð á því sjálf; tíðar kosningar þýða pólitískan óstöðugleika. Og í hverju birtist það? Það birtist í því að við náum ekki almennilega að vinna eftir þeim verkferlum sem við setjum okkur sjálf. Það er bagalegt.

Vonandi náum við að upplifa það, bæði Alþingi og hv. fjárlaganefnd, að vinna innan þessa ramma og komast í það ferli sem fjármálastefnan er — fjármálaáætlun og fjárlög sem byggjast síðan á því — þannig að við getum farið að smíða alvörugreiningartæki og viðmið til að umræðan hafi meiri fótfestu þegar hún fer fram hverju sinni um fjárlög.