148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:17]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þetta. Við hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að þetta er ekki einfalt viðfangsefni. Ég hef nú þegar rætt við alla helstu forsvarsmenn atvinnulífsins varðandi einmitt þetta og þær efasemdir hjá báðum aðilum að hægt sé að ná saman um starfsgetumat. Ég held að jafnvel þó að forsvarsmenn atvinnulífsins séu tilbúnir til þess að skipuleggja hlutastörf o.s.frv. þá þurfi ákveðna hvata þar inn til þess að það geti gengið í raun og veru. Ég hef ekki lausnina á því. En ég skynja nákvæmlega það sama og hv. þingmaður kemur hérna inn á hvað það snertir. Þessi vinna hefur verið í gangi í ráðuneytinu og verður lögð gríðarleg áhersla á samtal á milli þeirra hagsmunaaðila sem að þessu koma snemma á nýju ári.

Síðan er auðvitað annað sem er efni í stóra umræðu sem er af hverju allt þetta unga fólk er að koma þarna inn í upphafi. Er eitthvað í stuðningskerfinu gagnvart þessu unga fólki á fyrri stigum sem veldur því (Forseti hringir.) að þarna er alltaf að fjölga? Sú umræða er miklu stærri og kannski enn mikilvægari.