148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er með eina spurningu í tólf liðum. Nei, mig langar til að segja við hæstv. ráðherra: Það er ánægjulegt að heyra, ef ég skil það rétt, að henni lítist ekkert sérstaklega vel á ef verið er að beita þöggun innan Landspítalans. Ég vona að hún svari því skýrt á eftir. Og þá hvað hún ætli að gera í málinu ef það er þannig; tala við hjúkrunarfólkið eða rannsaka málið með einhverjum hætti.

Þegar talað er um einkavæðingu, eða það að bjarga heilbrigðisþjónustunni úr klóm auðvaldsins eða peningaaflanna, eins og hv. þingmaður hefur nú stundum talað um, þá veltir maður fyrir sér hvernig eigi að gera það og hvað eigi að gera. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra draga úr fjármunum til einkaþjónustunnar sem er í heilbrigðisgeiranum í dag? Ég var hjá lækni í morgun, fékk toppþjónustu á hans stofu. Verður það þannig að ég geti ekki leitað þangað eftir fjögur ár, skulum við orða það? Ætlar ráðherrann að beita sér fyrir að dregið verði úr fjárframlögum til einkavæddrar heilbrigðisþjónustu? Mun fjárveitingum eða þessi meinta stórsókn, sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson snilldarlega fletti ofan af hér að er engin, — er það þannig að hin meinta stórsókn verði þá eingöngu á vegum ríkisins, ekki í einkaþjónustunni?