148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það eru nokkrar spurningar sem hann skildi eftir handa mér, ég byrja á þeirri síðustu, sem lúta að því sem hann kallar mistökin stóru við Hringbraut.

Staðsetningin var skoðuð mjög ítarlega á árinu 2015 með ítarlegri úttekt þegar hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gegndi embætti heilbrigðisráðherra. Sú úttekt skilaði því að ákvörðunin var rétt. Hún var rétt. Þannig að uppbyggingin verður við Hringbraut. Það væri afar óráðlegt að snúa frá þeirri ákvörðun. Það myndi hafa mikinn kostnað í för með sér fyrir samfélagið og ekki síst fyrir heilbrigðiskerfið í heild þar sem við værum þá að setja uppbygginguna á bið til mjög langs tíma.

Ég er aðeins hugsi yfir orðfæri hv. þingmanns þegar hann talar eins og þær ráðstafanir sem lagðar eru til í fjárlagafrumvarpinu til viðbótar í heilbrigðismálum séu upphæðir sem nýtist ekki nógu vel, sem þjóni samþjöppunarstefnu, þar sé ekki passað upp á að árangurinn, sem hann þakkar sér fyrst og fremst, sé vel nýttur.

Ég vil í tilefni af þeirri nálgun hv. þingmanns spyrja hann hvort hann telji að á meðan farið er í nauðsynlega yfirferð á kerfinu, sem ég er sammála landlækni að þurfi að fara í, eigum við að halda áfram að beita aðhaldi á opinbert heilbrigðiskerfi?