148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki hélt ég því nú fram að stjórnvöld ættu að halda að sér höndum með fjárveitingar til heilbrigðismála á meðan menn væru að skoða kerfið. Þvert á móti. Ég var að benda á það að í ljósi þess að ríkisstjórnin virðist vera algjörlega glórulaus um hverjir gallar kerfisins eru þá er hún með ráðstöfunum sínum að auka enn við gallana, auka enn við vandann, m.a. með samþjöppunarstefnunni sem bitnar ekki hvað síst á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, t.d. á Heilbrigðisstofnun Norðurlands með mjög afgerandi hætti.

Það er þetta sem ég er að hvetja ríkisstjórnina til að varast rétt eins og landlæknir hefur hvatt ríkisstjórnina til að varast að halda áfram að auka á þennan vanda. En menn virðast ekki hafa nokkra einustu glóru um það í hverju vandinn liggur. Það á að byrja að skoða það núna að því er virðist. Miðflokkurinn kynnti þó skýra stefnu um það hvernig væri hægt að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið. Það gæti kannski hjálpað ríkisstjórninni og auðveldað henni verkið ef hún kynnti sér þá stefnu þar sem liggur fyrir áætlun um hvernig hægt er að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið þannig að fjármagnið nýtist betur.

Varðandi Landspítalann þá er misskilningur hæstv. ráðherra ekki síður stór í því tilviki. Það er nefnilega alrangt að ríkisstjórn mín hafi beitt sér fyrir því að Landspítalinn yrði byggður við Hringbraut með samþykki þingsályktunartillögu þar um. Það var sérstök krafa gerð um það að ef sú tillaga ætti að fara í gegn, sem var reyndar þingmannatillaga frá Kristjáni L. Möller, á lokadögum þingsins þá yrði að breyta henni, gæti ekki verið tillaga um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Það voru hins vegar allir sammála um að það þyrfti að ráðast í framkvæmdir, það þyrfti viðhald við Hringbraut á meðan verið væri að byggja nýjan spítala á nýjum stað, spítala fyrir 21. öldina.