148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:52]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst ætla ég að taka undir með hv. þingmanni varðandi fyrirkomulagið. Mér finnst það skilvirkara, pólitískara og meira lifandi og þingið stýrir meira fyrirkomulaginu. Það er gott.

Ég ætla líka að gleðja hv. þingmann með því að segja að langtímastefnumótun er hafin, sem ég fagna. Lengi hefur verið rætt um hana og hún er alltaf nefnd þegar menn eru að slá um sig og segja að kominn sé tími á að hefja hana. Þannig að hún mun nú rata hingað inn í þingið.

Varðandi gjaldtökuna. Í stjórnarsáttmálanum segir að áform um að færa ferðaþjónustuna í almennt þrep virðisaukaskattskerfisins séu lögð til hliðar. Þar er sagt að skoða eigi komugjaldið. Það er auðvitað gömul umræða og ný. Það er samt þannig, þannig að því sé til haga haldið, að við erum auðvitað með gistináttaskatt sem nú hefur verið hækkaður. Áður voru tekjur markaðar þannig að þær fóru t.d. í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Nú erum við búin að taka það úr sambandi en erum búin að hækka skattinn og ætlum að setja fjármagn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og landsáætlun sömuleiðis.

Við erum reyndar líka búin að breyta umferðarlögunum þannig að bílastæðagjöldin eru heimil á vegum sveitarfélaga úti um land, verið er að gera það. Það er þá líka ákveðin gjaldtaka.

Svo bara almennt. Ég tel að kominn sé tími til þess að setja punkt fyrir aftan gjaldtökuumræðuna. Það skiptir almenning greinilega máli og ég held að greinin sjálf vilji líka fara að setja punkt aftan við þá umræðu. Ég bind miklar vonir við að okkur takist að klára þetta mál. Ég ætla mér með aðstoð ríkisstjórnar, þings og í samráði við greinina, sem skiptir öllu máli, að klára þetta mál. Ég myndi vilja sjá, ef af komugjöldum verður, að það sé haft í beinum tengslum við uppbyggingu á náttúruperlum þannig að það haldist algjörlega í hendur. Það má þá kalla það umhverfisgjald eða hvað annað sem menn vilja kalla það (Forseti hringir.) til þess að það hljómi vel.