148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra ferðamála kærlega fyrir svarið. Þetta virðist vera á réttri leið. Það er gott að hafa það í huga vegna þess að það er ljóst að undanfarin ár hafa einkennst af miklum vandræðagangi varðandi gjaldtöku og álagsstýringu á þessari stóru atvinnugrein, ég tek undir það með hæstv. ráðherra. Það gleymist stundum í umræðunni að þessi villta vesturs-umgengni við náttúruperlur okkar veldur ekki aðeins óafturkræfri eyðileggingu heldur grefur hún líka undan fyrirtækjum í greininni og þá helst fyrirtækjum sem hafa haft þá framsýni til að bera að bjóða upp á dýra og sérhæfða þjónustu sem gefur okkur mestan virðisauka.

Mig langar til þess að vitna í orð formanns samstarfsflokksins, Vinstri grænna, hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur, þegar hún sagði í umræðu um fjármálastefnuna í mars síðastliðnum, með leyfi forseta:

„Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað fyrir skattlagningu á ferðaþjónustu. Ég lagði sjálf til slíka skattlagningu við afgreiðslu síðustu fjárlaga, um komugjöld sem yrðu tekin upp. Og í raun og veru er það algerlega óútskýranlegt að Alþingi hafi ekki brugðist við þeirri þróun sem hefur orðið í ferðaþjónustunni með skynsamlegri og sanngjarnri skattlagningu á þá grein.“

Ég velti fyrir mér hvort skilja megi það á orðum hæstv. forsætisráðherra að við séum tilbúin í þetta. Af því að sporin hræða veldur það manni ugg að enn og aftur eigi að fara að skoða málin. Samráð er gott og nauðsynlegt en það eru fæstir sem taka því fagnandi þegar rætt er um skattlagningu, þó að ég taki undir með hæstv. ráðherra hér um að margir í greininni séu farnir að verða óþreyjufullir eftir því að þessari umræðu ljúki.

Mig langar bara til að fá fram: Er samhugur innan ríkisstjórnarflokkanna um að ganga í þessi mál? Eða er þetta eitt af því sem skoðað verður á næstu árum með tilheyrandi áframhaldandi vandræðagangi? Er samhugur um að fara í þessi mál?