148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:09]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sef á þessari spurningu. Barnaverndarmál hafa verið talsvert mikið til umræðu í fjölmiðlum að undanförnu. Þetta er eitt af þeim málum sem er verið að skoða í ráðuneytinu. En ég held að ekki sé ástæða til að vera að ræða það svona djúpt hér í þingsal að svo stöddu.

Ég vildi líka koma inn á það sem hv. þingmaður ræddi áðan, þá stöðu sem er. Mér fannst ég eiginlega geta flutt ræðu hv. þingmanns þegar hún lýsti áhyggjum sínum af því sem er að gerast með ungt fólk á vinnumarkaði, hvernig það er að flosna upp af vinnumarkaði. Þetta er sérstaklega ungt fólk og sem glímir við andlega sjúkdóma, þunglyndi og fleira. Það er einfaldlega eitthvað að í kerfinu okkar. Við höfum sett inn alls konar úrræði, virkniúrræði og fleira. En þessi vandamál eru einfaldlega enn þá að aukast, sérstaklega á aldrinum 18–30 ára. Það eru sláandi tölur, eins og ég hef komið inn á hérna fyrr í dag og gerði líka í setningarræðu minni í gær, að það séu þúsund manns á aldrinum 18–30 ára skráð í atvinnuleit. Sá hópur er um fjórðungur allra atvinnuleitenda. Það vantar ekki að störf séu í boði, en þetta fólk er bara ekki að sækja. Það er eitthvað að í kerfinu. Ég held að velferðarkerfið sé ekki að grípa nægilega vel inn í og nægilega snemma gagnvart ungu fólki og styðja við það. Við erum alltaf að ræða það hvernig við ætlum að leysa vanda þess fólks sem er á þessum stað en við þurfum að færa umræðuna yfir í það hvernig við getum komið í veg fyrir að svona margir komist á þennan stað. Ég hlakka mjög til samstarfs við hv. þingmann og hæstv. velferðarnefnd í þessari vinnu, því að þarna held ég að sannarlega þurfi kerfisbreytingar. Ég veit ekki nákvæmlega í hverju þær eru fólgnar en hef áhyggjur af því að velferðarkerfið sé ekki að grípa nægilega vel inn í og nægilega snemma á mjög mörgum sviðum. Þetta er umræða sem við þurfum (Forseti hringir.) að taka og við þurfum að ræða hverju við getum breytt.