148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan bregðast við nokkrum athugasemdum og spurningum er snúa að skattamálum. Það er líka kallað eftir sýn hæstv. umhverfisráðherra á grænu skattana, en mér finnst nauðsynlegt að benda á að í þessu fjárlagafrumvarpi er horfið frá þeirri boðuðu stefnu sem ríkisfjármálaáætlunin geymdi sem samþykkt var síðastliðið vor. Það er þó nokkuð mikið slegið á þær tæplega 5 milljarða hækkanir á eldsneyti sem þar voru boðaðar frá 1. janúar. Engu að síður er 50% hækkun á kolefnisgjaldi sem mun halda áfram að hækka í samræmi við innleiðingu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

Mig langar að segja varðandi fjármagnstekjuskattinn að það skiptir máli að við tökum stofninn til skoðunar og vegum á móti skattprósentunni þó ekki væri nema til þess að glöggva okkur á því hvernig við erum að skattleggja fjármagn á Íslandi í dag borið saman við önnur lönd. Því er oft fleygt hér í salnum að við séum ýmist með lægri skatta á fjármagnstekjur eða hærri. Þeirri skoðun sem ég vil nú hrinda í framkvæmd í ráðuneytinu er meðal annars ætlað að draga fram betri samanburð í þeim efnum. Allir þekkja umræðuna um að sparifé sé skattlagt nokkuð grimmilega á verðbólgutímum þar sem verðbæturnar eru inni í skattstofninum.

Síðan er hér vikið að því að lítið fari fyrir skattalækkunum í upphafi kjörtímabilsins. Þá vil ég bara benda á það að einkaneyslan á Íslandi er að vaxa um tæp 8% á árinu 2017. Því er spáð að hún vaxi um rúm 5% á næsta ári. Vilji menn fara (Forseti hringir.) út í tekjuskattslækkanir eins og þessi ríkisstjórn hefur sagt að hún sé með á stefnuskrá sinni, og stendur í stjórnarsáttmálanum, þá velur maður auðvitað tímann þar sem er að draga (Forseti hringir.) úr einkaneyslunni, og aðeins að þrengja að, annars er hætta á því að maður sé að hella olíu á eldinn.