148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um einlægan vilja hæstv. heilbrigðisráðherra til að gera vel í þessum málaflokki. Ég þekki hana af því að vera kappsfull og fylgin sér í þeim málaflokkum sem hún tekur að sér. En ég segi enn: Ég held að góður bragur væri á því að nú við 2. umr. — og Miðflokkurinn er fús til að leggja það til — verði settur aukinn kraftur í heimaþjónustuna, þ.e. auknir fjármunir til hennar, til þess að við eigum þann kost næstu missirin að þeim sem þurfa, geta og vilja vera í sínu eigin húsnæði líði þar betur og séu öruggari um sig en áður. Því endurtek ég hvatningu mína um það til hæstv. heilbrigðisráðherra, um að þessum hluta, í því stóra spektrúmi sem öldrunarmál eru, verði sinnt betur og rækilegar. Það þarf að eyða óöryggi þeirra sem eru í óvissu um sína nánustu framtíð, bæði þeirra sem þjónustuna þurfa og aðstandenda þeirra. Oftar en ekki lendir þessi skortur á heimaþjónustu á aðstandendum. Þeir sem eru svo ólánsamir að eiga ekki gott bakland, eiga ekki barnahóp, eru sýnu verst staddir í þessum efnum. Ég endurtek því hvatningu mína en efast ekki um góðan vilja hæstv. ráðherra til góðra verka í þessu. — Takk.