148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið sem þó var ekki fullnægjandi, enda hafði verið bent á það í ræðu að í svari og ábendingum og umsögnum ríkislögreglustjóra væri bent á að hann var fullmeðvitaður um þær 400 milljónir sem höfðu verið tímabundnar en urðu varanlegar. Engu að síður er nauðsynlegt að koma með umtalsvert fé að auki, til viðbótar við þær 400 milljónir, enda alveg ljóst að þær bjarga ekki því sem bjargað verður þegar kemur að fækkun lögreglumanna. Það er augljós skortur á lögreglumönnum. Þeir lögreglumenn sem eru að störfum eru undir gríðarlegu álagi. Það álag birtist í langtímaveikindum, aukningu slysa, auknu brottfalli úr starfi o.s.frv. Það að segja að þær 400 milljónir sem hafa verið á fjárlögum undanfarin ár, vissulega tímabundin ráðstöfun þá en nú varanleg, muni bjarga þessu þegar ljóst er að nauðsynlegt er að bæta verulega í, að mati Ríkislögreglustjóra um 3 milljarða, til þess að koma þessu í viðunandi horf — það sjá það allir að 400 milljónir eru dropi í hafið svo að öryggis landsmanna sé gætt.