148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kom inn á vandann við húsnæðismálin. En það er hægt að gera ýmislegt og hefur verið gert ýmislegt hvað varðar eftirspurnarmálin, að hjálpa fólki að kaupa o.s.frv. En það vantar einfaldlega hús. Það er ekki mikið flóknara en það, það þarf að byggja hús. Eins og ég orðaði það fyrr í dag: Miðað við hversu kalt það getur orðið, eins og í dag, ættu það að vera einföld borgararéttindi á Íslandi að hafa þak yfir höfuðið. Og hitaveitu ef við förum út í það.

Ég heyrði ýmsar hugmyndir í svari ráðherra en ekki svo mikið um aðgerðir. Ríkisstjórnin hefði fullt af áformum og ætlaði að gera heilan helling. Ég heyrði fullt af hugmyndum. Það væri kannski ágætt að fá aðeins skýrari hugmyndir um aðgerðir. Sem sagt: Við ætlum að gera. Ekki: Það gæti verið gert.