148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru þrjár spurningar sem mig langar til að beina til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Það er í fyrsta lagi sem snýr að tveimur liðum, útgjaldaliðum: Er ráðherrann ánægður með þær upphæðir sem er varið til nýframkvæmda og viðhalds á vegakerfinu? Hvernig metur hann að þær upphæðir harmóneri við samgönguáætlanirnar, bæði tólf og fjögurra ára áætlun sem nú eru í gildi? Hvað sér hann fyrir sér varðandi þróun á rekstrarumhverfi innanlandsflugsins? Mér sýnist þess hvergi getið í fjárlagafrumvarpinu. Nú var umtalsverð umræða um þetta í aðdraganda kosninga og virtust allir flokkar, held ég að ég treysti mér til að segja, áhugasamir um að breyta því umhverfi sem innanlandsflugið starfar innan. Hvað sér ráðherra fyrir sér í þeim efnum og hvaðan sér hann fyrir sér að fjármunir í það, verði eitthvað gert, verði teknir?