148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Útsvar er ekki greitt af fjármagnstekjum. Við sem höfum verið í sveitarstjórnum höfum horft upp á það hvernig menn nýta sér skattahagræðið með því að flýja yfir í fjármagnstekjurnar og arðinn og borga sér lægri laun út úr félögunum.

Það þarf að styrkja tekjustofn sveitarfélaganna. Væri ekki gott ráð að láta útsvar ganga líka yfir fjármagnstekjur, líka til þess að auka réttlæti og sanngirni? Því að sveitarfélögin þurfa auðvitað að sjá börnum þeirra sem greiða sér mikinn arð og miklar fjármagnstekjur fyrir leikskólaplássum og skóla o.s.frv. Þetta skapar leiðindi í þorpunum úti um land þar sem menn vita og þekkja þessa hluti. Væri ekki betra í þessari stöðu að útsvar yrði greitt af fjármagnstekjum þannig að menn séu ekki, þeir sem allra ríkastir eru, að nýta sér sambandið á milli (Forseti hringir.) tekjuskatts og fjármagnstekjuskatts sér til hagræðis og borga þá minna til samfélagsins en græða meira sjálfir?