148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka það til skoðunar. Mér þykir það mjög brýnt. Fyrst svo er hendi ég mér í aðra spurningu sem varðar frítekjumark ellilífeyris vegna atvinnutekna. Lagt er til 100 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna. Kostnaðurinn við þetta er 1,1 milljarður sem í samhengi við fjárlög og vissulega í samhengi við málaflokkinn er ekki há upphæð. Önnur hugmynd er sú að afnema einfaldlega skerðingarnar vegna atvinnutekna alfarið og samkvæmt svari frá ráðuneytinu, sem barst minnir mig í sumar eða vor, eða hvenær sem það var, er kostnaðurinn við það einungis 2,4–2,5 milljarðar, einhvers staðar þar á milli. Þá er ekki gert ráð fyrir tekjunum sem koma til baka í formi tekjuskatts eða atvinnuþátttöku þeirra eldri borgara sem geta tekið þátt og vilja taka þátt í atvinnulífinu. Með hliðsjón af því að munurinn fyrir ríkissjóð er svo lítill, myndi það ekki borga sig, hreinlega til að einfalda kerfið? Ég veit að hæstv. ráðherra kann að meta einföld kerfi. Sömuleiðis sá sem hér stendur. Sér í lagi í almenna tryggingakerfinu. Það myndi einfalda kerfið. Það mundi auka frelsi eldri (Forseti hringir.) borgara. Og það kostar einfaldlega ekki það mikið að mínu mati að það borgi sig ekki að gera það.