148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir þetta andsvar. Mér er það mjög ljúft að útskýra hvað átt er við með kjarki. Það er oft þannig í stjórnmálum að mörgum okkar þykja margar ákvarðanir eins og maður segir sjálfsagðar, eðlilegar, skynsamlegar, en þegar á hólminn er komið þá þora menn ekki endilega að framkvæma þær. Það sem ég á við með kjark er að við horfum t.d. á það hvernig margir misstu fótanna hér þegar Icesave-baráttan stóð sem hæst. Þá bognuðu menn gegn erlendu valdi og ætluðu margir hverjir ekki að þora í þann slag. Sem betur fer var því afstýrt af fólki sem hafði kjark og sýn.

Hvers vegna eigum við að taka þennan banka yfir? Jú, hann er stútfullur af eigin fé sem Miðflokkurinn vill að ríkissjóður Íslands hafi með að segja hvernig er varið. Það er næsta víst að bankinn er líka verðmætari en verðmat hans í dag gerir endilega ráð fyrir. Ég hélt ég myndi ekki gera þetta, en ég gæti bent hv. þingmanni á ágæta yfirferð um daginn hjá Sigrúnu Davíðsdóttur útvarpskonu þar sem hún fór yfir það að eitt það fyrsta sem menn myndu gera, þ.e. þeir aðilar sem komast yfir þennan banka, væri að búta hann upp og selja út úr honum hluti með hagnaði, eins og t.d. Valitor, kortafyrirtækið Valitor.

Ég segi hiklaust: Ef einhverjir eiga að hagnast á því að búta banka eins og Arion banka niður og selja hann með hagnaði þá er það íslenska þjóðin og íslenskir skattgreiðendur og íslenska ríkið en ekki erlendir vogunarsjóðir. Þess vegna leggur Miðflokkurinn svona mikla áherslu á þetta mál og mun gera áfram. En til þess þarf kjark, hv. þingmaður.