148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[12:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svar hæstv. dómsmálaráðherra, sem þó svaraði hvorugri spurningu minni. Sér hún fyrir sér að orðið geti breyting á þessu sama ákvæði fyrst við erum að krukka í þetta einstaka ákvæði útlendingalaganna, að það geti orðið slík breyting á þessu ákvæði? Ég vil heyra afstöðu hennar til þess að þeir námsmenn sem hér dvelja sem eignast börn t.d. á þessu tímabili eða vilja koma með börn sín hingað geti fengið leyfi til þess, vegna þess að í lögum um útlendinga fá námsmenn ekki að halda börnum sínum hér á landi eignist þeir barn meðan á námi stendur, sem og sú staða að námsmenn geta ekki fengið ótímabundið dvalarleyfi. Alveg sama þótt þeir hafi verið hér í námi árum og jafnvel áratugum saman þá verða þeir, vesgú, að fara úr landi þegar þeir ljúka námi endanlega. Sér dómsmálaráðherra fyrir sér (Forseti hringir.) að breyta því?