148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil, eins og aðrir hv. þingmenn, þakka hv. málshefjanda fyrir frumkvæði hans í þessu efni. Það mun mála sannast að hvað eina sem fallið er til þess að bæta vinnubrögð hér á hinu háa Alþingi og sem stuðlar að vandaðri málsmeðferð er fallið til þess að styrkja hlutverk Alþingis og auka veg þess í samfélaginu.

Ég tala hér sem formaður annars af tveimur minnstu þingflokkunum. Þannig háttar til í mínum þingflokki að við erum öll ný og búum ekki að fyrri þingreynslu þannig að við kannski höfum ekki mikinn samanburð, en ýmislegt hefur komið fram í umræðunni og sömuleiðis í almennum umræðum á undanförnum árum sem menn þekkja; ófyrirsjáanleiki um þingstörf, umkvartanir um virðingarleysi fyrir tíma þingmanna og hér var í máli eins hv. þingmanns áðan nefnt virðingarleysi jafnvel fyrir vinnulöggjöfinni.

Ég held að ástæða sé til að fagna þessari umræðu og mér er óhætt að lýsa því yfir að af hálfu míns þingflokks verða studdar allar aðgerðir sem fallnar eru til þess að auka skilvirkni í störfum Alþingis með vandaðri málsmeðferð.

Ég leyfi mér að taka sérstaklega undir með forsætisráðherra sem lagði hér áherslu á forgangsröðun. Ég vil sömuleiðis leyfa mér að leggja áherslu á það, eins og reyndar kom fram hjá hv. málshefjanda, að sú regla að meiri hlutinn ráði er lýðræðisleg regla, en það er samt sem áður pláss fyrir vernd minni hluta í störfum Alþingis. En að sjálfsögðu allt innan eðlilegra marka.