148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

24. mál
[17:50]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Þótt hún láti e.t.v. ekki mikið yfir sér er þetta mikilvæg tillaga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins leggja fram. Þetta er gríðarmikilvægt réttlætismál fyrir foreldra sem þurfa að dveljast utan heimilis til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Þetta er mjög jákvætt fyrsta skref, en verst að ekki er gengið nógu langt. Það að heilbrigðisþjónusta í landinu sé þannig að foreldrar sem eiga von á barni og þurfa að dveljast utan heimilis þurfi að steypa sér í skuldir vegna dvalar í Reykjavík er náttúrlega fáránlegt. Það eiga ekki allir fjölskyldu eða vini á höfuðborgarsvæðinu sem geta veitt barnshafandi foreldrum og jafnvel eldri börnum gistingu í lengri tíma, eins og oft þarf í þessum tilfellum, og líkt og Erla Rún Sigurjónsdóttir, ljósmóðir á Ísafirði, benti á nýlega í Facebook-færslu er það ömurleg staða að vera kasóléttur á svefnsófa hjá menntaskólavinkonu. Nýlega var einmitt umfjöllun í fjölmiðlum um hjón búsett á Ísafirði sem eiga von á tvíburum og sjá fram á að þurfa að greiða um 200 þús. kr. fyrir tveggja vikna dvöl á sjúkrahóteli. Það er eitt dæmi af mörgum.

Það er sorglegt en satt að verðandi foreldrar sem búa utan Stór-Reykjavíkursvæðisins eða Stór-Akureyrarsvæðisins eru hreinlega ekki fyrsta flokks Íslendingar. Í raun má segja að þeir séu ekki heldur annars eða þriðja flokks Íslendingar, því að þeir fá hvorki þjónustu í heimabyggð né stuðning til að leita heilbrigðisþjónustu þar sem hana er að finna.

Ég vona að velferðarnefnd skoði þetta þegar breytingartillagan verður í meðförum nefndarinnar.