148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

almannatryggingar.

51. mál
[12:28]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er afar stolt að fá að standa hér núna og mæla fyrir fyrsta frumvarpi Flokks fólksins á hinu háa Alþingi. Frumvarpið lýtur að ósk um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

Áður en ég ræði það frekar langar mig að tala um markmið almannatrygginga. Markmið almannatrygginga er að tryggja ellilífeyrisþegum framfærslu sem dugar þeim til þess að geta framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi. Ég vildi örlítið tala um það.

Mig langar núna að tala um greinargerðina sem við látum fylgja frumvarpinu áður en ég nefni þessar stuttu lagabreytingar sem við óskum eftir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, var m.a. gerð sú breyting á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna voru afnumin. Var þess í stað lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði“ — og eins og allir vita er þetta sú upphæð sem tók gildi núna um síðustu áramót með þeim breytingum — „og gildir það um allar tekjur ellilífeyrisþega, óháð tegund þeirra. Eftir samþykkt laganna hefur komið fram gagnrýni á þessa breytingu að því er atvinnutekjur varðar og hafa komið fram kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að afnema skerðingar á atvinnutekjur eldri borgara.“

Flokkur fólksins hefur gjarnan kallað til sín sérfræðinga á þeim sviðum samfélagsins sem við viljum efla skilning okkar á. Einn af þeim, dr. Haukur Arnþórsson, hefur unnið greinargerð sem ég ætla að vísa til nú, það var greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra. Hann vann greinargerðina fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og ritaði grein um þá rannsókn sína í Morgunblaðið 23. nóvember sl. Þar kemur fram að afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi alls ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og það sé jafnvel vel hugsanlegt — takið eftir, ágætu þingmenn og áheyrendur og hæstv. forseti — það er jafnvel hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni.

„Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Því er lagt til að greiðslur til ellilífeyrisþega verði ekki skertar vegna atvinnutekna skv. 23. gr. laga um almannatryggingar.“

Nú langar mig að vísa til 1. gr. frumvarpsins, en þar segir, með leyfi forseta:

„Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skulu atvinnutekjur ellilífeyrisþega ekki skerða ellilífeyri.“

Í 2. gr. kemur fram að lögin öðlist gildi strax núna um áramótin, eða 1. janúar, en komi til framkvæmda 1. febrúar.

Þarna erum við í rauninni að vísa til þess að áður en þessu verður breytt er verið að mæla fyrir því núna í fjárlagafrumvarpinu að sú hækkun sem er verið að bjóða ellilífeyrisþegum núna vegna atvinnutekna á einungis að vera upp í 100.000 kr.

Ég ætla í þessu samhengi að vísa til hæstv. fjármálaráðherra sem því miður er ekki hérna til þess að verja sig, en hann hefur sagt að með því að afnema þetta frítekjumark þá séum við jafnvel að gera þeim ellilífeyrisþegum sem hafi mjög háar tekjur kleift að nýta sér eftir sem áður greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Við erum algjörlega ósammála þessu. Eðli málsins samkvæmt segir það sig sjálft að þeir sem hafa mjög háar tekjur — nú skulum við tala um eldri borgara og markmið okkar með þessu frumvarpi sem er fyrst og síðast að reyna að taka utan um þann hóp eldri borgara sem lifir í fátækt, sem er fastur í fátæktargildru. Staðreyndin er sú að 45% af eldri borgurum okkar líða mismikinn skort. Það er eðli málsins samkvæmt afskaplega hæpið að halda að þeir einstaklingar sem eru á einhverjum ofurlaunum og tilheyra þessum hópi eldri borgara muni í kjölfarið nýta sér einnig almannatryggingarnar. Við verðum að trúa því að þeir einstaklingar hafi haft þá fyrirhyggju að vera annaðhvort komnir með mjög góð lífeyrisréttindi sem í rauninni skerða um leið greiðslur þeirra úr almannatryggingum, eða hafi haft fyrirvara og forvörn fyrir sig og lagt til hliðar og séu þá komnir með fjármagnstekjur. Við skulum ekki gleyma því að við erum að tala um eldri borgara sem eru komnir um og yfir sjötugt. Við erum að tala um fólkið okkar sem á ekki eftir að vinna í svo mörg ár og er að reyna núna á þessum tímapunkti að skaffa sér þokkalegt viðurværi þannig að einhver sómi sé að.

Til enn frekari undirstrikunar vil ég benda á stjórnarskrárvarinn rétt okkar í 76. gr. þar sem segir að tryggja eigi öllum rétt, öllum, það á að hjálpa öllum til þess að geta lifað sómasamlega og með reisn. Ekki bara sumum, hæstv. forseti, heldur öllum. Við verðum að átta okkur á því að þessir einstaklingar og sá hópur sem við erum að tala fyrir núna, eldri borgararnir okkar, eru þeir sem hafa ræktað landið okkar og koma því í fangið á okkur eins og það er hér og nú í dag. Mér finnst, hæstv. forseti, að við eigum að sýna þeim þá lágmarksvirðingu að leyfa þeim að bjarga sér ef þau mögulega geta og lifa með reisn og eiga áhyggjulaust ævikvöld.

Ég vísa aftur í hv. fjármálaráðherra þegar hann segir: Hvað með að banka upp á hjá áttræðu konunni og segja: Nú er búið að afnema frítekjumarkið á launatekjur, farðu út að vinna. Þetta er útúrsnúningur. Þetta er sorglegur útúrsnúningur. Auðvitað þurfum við einfaldlega að hækka grunnframfærsluna fyrir alla. Við erum aðeins að mæla fyrir ákveðnum hóp núna. Við erum að reyna að koma í veg fyrir það að frítekjumarkið hækki einungis um 100.000 kr. Við erum að reyna að koma í veg fyrir þann skandal í raun og veru. Þess vegna segi ég: Við þurfum náttúrlega líka að breyta þessu þó að ekki sé mælt fyrir því í þessu frumvarpi, þá kemur það bara síðar. Flokkur fólksins er náttúrlega bara að byrja sína vegferð og byrja sína hugsjón. Ég get lofað ykkur því að við eigum eftir að vera voða dugleg að koma okkar málum á framfæri.

Ég vil bæta því við í lokin að ég er afar stolt af því að segja að það er auðvitað allur þingflokkur Flokks fólksins sem stendur að baki þessu góða frumvarpi, þ.e. auk mín þeir Guðmundur Ingi Kristinsson, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Við erum samstiga.

Ég segi um leið: Ég skora á alla að láta a.m.k. á það reyna hvort sú skýrsla sem dr. Haukur Arnþórsson hefur lagt fram á við rök að styðjast. Við erum löggjafinn. Ef þetta virkar ekki og skilar sér ekki eins vel og örugglega og við teljum að það muni gera þá verður bara að snúa til baka og reyna að hagræða í einhverja aðra átt.

Í þessu tilviki segi ég einfaldlega: Við eigum allt að vinna. Við höfum engu að tapa. Stöndum okkur nú og verum dugleg í þágu þeirra sem virkilega þurfa á því að halda. Um leið og ég mæli þetta þá vísa ég frumvarpinu til hv. velferðarnefndar.