148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

almannatryggingar.

51. mál
[12:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir og flutt er af gervöllum þingflokki Flokks fólksins, öllum fjórum þingmönnunum, er um að bæta hag þeirra aldraðra sem vilja og geta starfað á vinnumarkaði til þess að bæta hag sinn og ná ýmsum öðrum markmiðum sem ég mun víkja að á eftir.

Mig langar til að vekja í upphafi máls míns athygli hv. þingheims á ályktun stjórnar Landssambands eldri borgara sem dagsett er 19. desember 2017. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Stjórn Landssambands eldri borgara undrast þær tillögur sem fyrir liggja hjá ríkisstjórnarflokkunum að hækka frítekjumark atvinnutekna aðeins í 100 þúsund krónur á mánuði. Fyrir ári var þessi fjárhæð 109.000 krónur og hafði þá verið óbreytt frá ársbyrjun 2009. Ef frítekjumarkið hefði fylgt launaþróun ætti það að vera 195 þúsund krónur í dag. Eðlilegast væri að fella alveg niður skerðingar vegna atvinnutekna eins og gert er víða á Norðurlöndunum.“

Vísað hefur verið til þess að breytingu af því tagi sem hér er lögð til fylgi kostnaður fyrir ríkissjóð og er borin fram talan 1 milljarður kr. í því sambandi. Það er sjálfsagt að vekja athygli á því að sú tala sýnist ekki studd við mjög ítarlega útreikninga eða greiningu á áhrifum slíkra breytinga. Þessi tala virðist ekki taka mið af þeirri breytingu á atvinnuþátttöku, á þeirri breytingu sem gæti orðið á umfangi vinnu þeirra sem þegar eru við störf og hún sýnist ekki taka mið af því að hugsanlega hefur gildandi fyrirkomulag ýtt undir svarta vinnu í þessu sambandi.

Í þeirri álitsgerð sem dr. Haukur Arnþórsson hefur gert eru þeir þættir metnir og þar á meðal vikið að tekjuskatti, veltugjöldum og samfélagslegum áhrifum. Þessara samfélagslegu áhrifa þeirra er getið m.a. í frumvarpi til laga, svokölluðum bandormi, (Forseti hringir.) þar sem hægt er að taka undir hvert orð. Það er fjallað um að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð auki möguleika (Forseti hringir.) aldraðra á að bæta kjör sín. Aukin vinna og virkni stuðli að betri heilsu, dragi úr einangrun og hafi almennt (Forseti hringir.) mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Þau áhrif skyldu ekki vanmetin.