148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

almannatryggingar.

51. mál
[12:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmönnum í Flokki fólksins fyrir að flytja þetta góða mál. Sá ágæti flokkur getur búist við stuðningi af minni hálfu og ég þori eiginlega að fullyrða líka af hálfu annara í þingflokki mínum. Þetta er sama tillaga og kemur fram í breytingartillögu á nefndaráliti mínu við hinn svokallaða bandorm, sem er frumvarpið sem fylgir fjárlögunum.

Kostnaðurinn við þetta hefur verið greindur. Í svari til hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar á sínum tíma kom fram hjá hv. velferðar- og jafnréttismálaráðherra að heildarkostnaðurinn við að afnema skerðingar af ellilífeyri almannatrygginga vegna atvinnuþátttöku væru tæpir 2,5 milljarðar, sem er afskaplega lág upphæð í samhengi við fjárlög og almannatryggingar. Það eru ekki bara sanngirnisrökin sem gilda, sem hv. þm. Inga Sæland fór yfir hérna áðan. Ég ætla leyfa þeirri ræðu að njóta þeirra raka, sanngirnisrökin hafa komið skýrt fram. Það eru líka þau rök að með því að hækka frítekjumarkið einungis á einum tekjuflokki er kerfið flækt pínulítið aftur. Með því að afnema skerðingarnar einfaldast það, myndi ég halda, sem eru aukarök fyrir þessu góða máli. Það er gulls ígildi, ef svo má að orði komast, að hafa kerfið einfalt því að það einfaldar fólki að leita réttar síns, einfaldar kerfinu að reikna rétt, sem á það til að klikka, og hjálpar okkur stjórnmálamönnum að laga kerfið þegar það klikkar, sem það vissulega gerir allt of oft.

Í fjárlögum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir að þetta 100.000 kr. frítekjumark muni auka útgjöld ríkissjóðs um 1,1 milljarð á ári. Með hliðsjón af því að kostnaðurinn við að afnema það er tæpir 2,5 milljarðar þá er munurinn þarna 1,4 milljarðar. Munurinn felur í mesta lagi í sér aukaútgjöld upp á 1,4 milljarða, sem eru smámunir í samhengi við málaflokkinn og fjárlög, í ljósi þeirrar miklu búbótar sem það myndi vera.

Það er ekki eins og við séum að stinga upp á 15 milljarða útgjaldaaukningu. Það er ekki þannig. Þetta eru smámunir í samhengi við málaflokkinn og fjárlög en þó mikilsverð tilraun.

Nú vildi ég óska að hér hefði verið meiri tími til að fara yfir allt saman.

Fram kom á fundi nýlega í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að búið væri að gera þetta í Noregi. Ég hef ekki fengið það staðfest sjálfur, en það kom fram þar. Ég vil minna á að það er mjög mikilvægt að þetta mál komi fram sem sjálfstætt mál frá Flokki fólksins vegna þess að nú greiðum við atkvæði um breytingartillögu Pírata fyrir helgi. Ef ég á að vera raunsær finnst mér líklegt að hún falli, því miður. En þá höfum við meiri tíma til þess að ræða þetta mál í nefnd, sérstaklega þennan eina punkt, og auðvitað í 2. umr. og síðan í 3. umr. Mér finnst það mjög mikilvægt og því vil ég þakka þingflokki Flokks fólksins fyrir að leggja þetta mál fram. Ég hlakka til að tala meira um það og koma öllum mínum sjónarmiðum að við 2. umr.