148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

almannatryggingar.

51. mál
[12:56]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum hjartanlega fyrir góðar undirtektir í þessu góða máli, en þetta er fyrsta frumvarpið sem Flokkur fólksins leggur fram.

Ég vil leyfa mér að vona það, stend í þeirri góðu trú, að hér muni ríkja samstaða um þetta. Eins og ég vísaði til áðan þá er í rauninni meira virði að líta til þeirrar góðu skýrslu sem dr. Haukur Arnþórsson setur fram með sínum hóflegu áætlunum, því hann segir: Þetta eru hóflegar tölur, sem ég ætla ekki að tíunda hér en vísa í skýrsluna fyrir alla þá sem vilja kynna sér hana. Ég vil sérstaklega beina máli mínu til hv. þm. Lilju Rafneyjar (LRM: Magnúsdóttur.)Magnúsdóttur, þakka þér fyrir, hvað varðar hina sem verst eru settir og geta ekki unnið. Það segir sig alveg sjálft að við erum ekki akkúrat að taka utan um þann hóp, um það verður næsta frumvarp.

Við höfum talað fyrir því í Flokki fólksins alveg frá degi eitt að hér eigi lágmarksframfærsla að vera 300 þús. kr. án skatta og skerðinga, 300 þús. kr. lágmarksframfærsla. Ég hef kallað eftir og óskað eftir samstöðu allra þingmanna um það hvernig við getum með öllum okkar sérfræðingum hagrætt því þannig að það þurfi ekki að kosta formúu af takmörkuðum fjármunum ríkissjóðs, sem hefur svo sem aldrei staðið sterkar, og komið því þannig fyrir að við getum látið skattkerfið með hagræðingu standa undir því án kostnaðar að þessi hópur sem ekki hefur slíka framfærslu eins og 300 þús. kr. eru, hafi hana.

Við skulum a.m.k. taka eitt skref í einu. Þetta er jákvætt skref a.m.k. fyrir þennan ákveðna hóp sem við erum að berjast fyrir núna, að gefa eldri borgurum okkar kost á því að reyna að bjarga sér sjálfir ef það er nokkur kostur á því. Hitt er annað mál eins og ég segi, hvort sem það lýtur að öryrkjum og láglaunafólki og öllum þeim sem eru fastir í fátæktargildru, því staðreyndin er sú að 45,3% þeirra sem gefa upp til skatts eru með undir 310 þús. kr. á mánuði. Það er okkar þingmanna að taka utan um þessa hópa og sjá til þess að þeir geti lifað sómasamlega og með reisn.

Ég segi enn og aftur: Takk fyrir allan þennan stuðning. Ég hlakka til að vinna með hverjum sem vera vill að þessu góða máli.