148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og andsvarið. Hv. þingmaður kemur hér inn á heilbrigðiskerfið. Við höfum verið að auka verulega útgjöldin til þessa málaflokks, ekki bara í þessu frumvarpi þó að það sé sannarlega verið að því, heldur höfum við á undanförnum misserum verið að bæta í. Þetta er eitt af þeim kerfum þar sem við gáfum verulega eftir í kjölfar efnahagshrunsins. Það er vissulega tilefni til að byggja upp þetta mikilvæga kerfi sem við getum kallað félagslega innviði.

Á bls. 4 í nefndaráliti er komið ágætlega inn á þá útgjaldaaukningu sem er til heilbrigðisstofnana úti á landi. Þar bætum við jafnframt við. Mesta aukningin sem sett er í heilbrigðiskerfið í þessu frumvarpi er til Landspítalans. Það er sannarlega verið að bæta í að raungildi. Landspítalinn kom fyrir nefndina og það var mjög gott samtal. Ég held ég megi alveg fullyrða að við séum að ná til lands varðandi það að þau geti sinnt rekstri sínum á núlli.