148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:37]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er oft erfiðara að standa frammi fyrir fyrri yfirlýsingum þegar út í ábyrgðina er komið. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í nokkur atriði sem fram hafa komið í stefnu flokks hennar og hennar eigin yfirlýsingum á fyrri árum. Það fyrsta er: Í breytingartillögum við gildandi fjármálaáætlun frá því í vor lagði hv. þingmaður áherslu á að tekjur yrðu auknar verulega og reyndar útgjöld líka, en að afgangur ríkissjóðs yrði aukinn til þess að bæta aðhaldsstig ríkisfjármálanna. Í nefndaráliti minni hluta var lögð mikil áhersla á það og talað um að auka afgang ríkisfjármálanna um 0,5% af vergri landsframleiðslu á fyrstu árum fjármálaáætlunar, úr 1,5% í 2%. Nú er flokkur hv. þingmanns í meiri hluta og niðurstaðan er að minnka afganginn í 1,2% af vergri landsframleiðslu. Mig langar að spyrja hvað valdi þessum sinnaskiptum.