148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:48]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Stutt er til jóla og annað árið í röð eru fjárlögin, þau sem nú eru að mestu hnoðuð og mótuð í ráðuneytunum á Alþingi, til afgreiðslu á allt of stuttum tíma sem hlýtur að vera umhugsunarefni hverjum þeim sem annt er um lýðræðið. Það er verkefni Alþingis að ákvarða tekjur og útgjöld ríkisins fyrir komandi ár. Kjörnir fulltrúar landsmanna hafa hreinlega ekki tíma til að taka ígrundaða afstöðu til frumvarpsins í einstökum liðum. Við þetta er auðvitað ekki búandi og vonandi þarf Alþingi ekki að vinna oftar við slíkar aðstæður.

Auðvitað eru margir góðir hlutir að gerast í fallega landinu okkar. Hingað kemur aragrúi ferðamanna og fjöldi þeirra eykst ár frá ári svo mörgum þykir jafnvel nóg um. Fiskveiðar hafa frá hruni verið með besta móti og nýir stofnar og tegundir hafa synt hingað inn á miðin þjóðinni allri til bjargar á erfiðum tímum. Raforkuverin snúast sem aldrei fyrr og bræða hrámálmana svo að tekjur þjóðarinnar aukast þrátt fyrir að margir séu á þeirri skoðun að meira fé mætti þar renna í sameiginlega sjóði landsmanna. Þannig er hér allt á blússandi dampi eins og stundum er sagt. Tekjur ríkisins eru í hæstu hæðum og skuldir þess greiddar hratt niður.

Þjóðarkakan margumtalaða er því nú um stundir stór, efnismikil og rjóminn sem umlykur hana með þykkasta móti. Það var því von margra sem búa við bág kjör; öryrkja, aldraðra og ýmissa láglaunastétta, að nú væri rétti tíminn kominn til að skera kökuna þeim í hag. Það eru því vonbrigði að ekki er gerð nokkur tilraun til þess t.d. að lækka persónuafslátt sem mundi einmitt koma þessu fólki til góða. Staðreyndin er sú að allar tekjur umfram tæpar 150 þús. kr. eru skattlagðar á sama tíma og viðurkennt er samkvæmt öllum mælikvörðum að það kostar helmingi meira að framfleyta sér. Í þessu felst heljarmikil mótsögn, nefnilega sú að um leið og ríkisstjórnin þverskallast við að hækka persónuafslátt og hætta þannig að skattleggja þessi lágu laun sem ekki er hægt að lifa á, þá er verið að segja að skattlagning þeirra hópa sem minnst hafa á milli handanna sé bráðnauðsynleg til rekstrar ríkisins. Það að ríkisreksturinn sé byggður á slíkum skattlagningum er auðvitað ekkert annað en til skammar og kalla ég eftir því að við sameinumst öll til að færa skattlagninguna frá þeim hópum, sem best er gert með því að hækka skattleysismörkin verulega.

Flokkur fólksins hefur lagt á það ofuráherslu að skattleggja ekki tekjur undir 300 þús. kr. Þegar staðgreiðslan var tekin upp fyrir 30 árum var persónuafslátturinn það hár að tekjur framreiknaðar til dagsins í dag að fjárhæð 290 þús. kr. voru skattfrjálsar, tekjur undir 290 þús. kr. voru skattfrjálsar. Erum við að tala um eitthvert draumaríki? Nei, við erum að tala um Ísland fyrir 30 árum. Flestir eru sammála um að við höfum tekið stórstígum framförum síðan þetta var. Ef við gátum rekið samfélagið án þess að skattleggja svo lágar tekjur fyrir 30 árum þá er það einnig unnt núna.

Virðulegi forseti. Stofnanir úti á landi hafa kvartað yfir því að vera sett skör lægra en þær á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að fjárveitingum til verkefna sem þær sinna. Hér undir falla t.d. heilbrigðisstofnanir og framhaldsskólar. Hafa forstöðumenn þeirra til að mynda í Suðurkjördæmi, og ekki síst á Suðurnesjum, talið sig bera skarðan hlut frá borði. Það hafa þeir sýnt fram á í máli og riti og það er ekki boðlegt ef rétt er og mun sannarlega vera vaktað á næstunni.

Íbúafjölgun bæði á Suðurnesjum og í Árnessýslu hefur verið fordæmalítil undanfarin ár og þar fara einnig um flestallir þeir ferðamenn sem hingað koma. Afskaplega mikilvægt er að uppbygging helstu meginstoða eigi sér stað jafnhliða aukningu íbúafjölda og verkefna á ýmsum sviðum. Þannig er með heilbrigðisstofnanir, framhaldsskóla, lögreglu og vegakerfi.

Óhætt er að segja að afar langt sé í land á þeim sviðum ef litið er til Suðurkjördæmis, sem nefnt er hér einfaldlega vegna þess að sá sem hér talar þekkir þar betur til.

Ég hlakka til að vinna með hæstv. samgönguráðherra á sviði samgangna í kjördæminu okkar því að þar eru verkefnin ærin. Ljúka þarf við Reykjanesbrautina, Grindavíkurveginn, veginn milli Hveragerðis og Selfoss og gera stórátak í að fækka einbreiðum brúm á leiðinni til Hornafjarðar, svo að ekki sé talað um að færa samgöngur til Vestmannaeyja í það horf sem íbúum er bjóðandi þar.

Virðulegi forseti. Ekki er unnt að segja að í nýju fjárlagafrumvarpi sjáist þess merki að ríkisstjórnin hyggist efla löggæslu í landinu þó að í stjórnarsáttmálanum sé talað um öfluga löggæslu. Staðreyndin er sú að lögreglan hefur búið við nær samfellda fækkun lögreglumanna frá því löngu fyrir hrun og það á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað og komur ferðamanna til landsins hafa margfaldast. Óhætt mun að fullyrða að fjárveitingar til löggæslu séu alls ekki nægilegar til að tryggja lögreglu þær starfsaðstæður sem nauðsynlegar eru í þjóðfélagi nútímans. Brýn og aðkallandi þörf er á fjölgun lögreglumanna og sú þörf er ekki nýtilkomin, eins og kemur fram í skýrslu innanríkisráðuneytisins frá 2012 um stöðu lögreglunnar þar sem helsti vandi lögreglunnar var talinn vera fækkun lögreglumanna.

Því til frekari stuðnings vil ég benda á ummæli Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna, frá því í sumar en þar sagði hann um ástand fjárveitinga til lögreglu að hægt og sígandi væri ástandið orðið þannig að það væri löngu orðið grafalvarlegt.

Nauðsynlegt er að gefa vel í til fjárveitinga til lögregluembættanna. Þau rúm 7% sem nú er veitt til þeirra umfram síðasta ár fara ekki langt með að efla lögregluna svo viðunandi sé.

Virðulegi forseti. Lögreglan er stoð undir lýðræðisskipan samfélagsins. Verði hún of veik til að takast á við það hlutverk sitt að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu bitnar það á rétti fólks til lífs, frelsis, mannhelgi og persónulegs öryggis. Einnig bitnar það á öryggi ríkisins og samfélagsins í heild. Of veikburða lögregla skapar því sérstaka áhættu fyrir öryggi samfélagsins og brýnt er að grípa til aðgerða sem miða að því að styrkja lögregluna, til þess að hún geti tekist á við hlutverk sitt, til að tryggja réttaröryggi borgaranna. Þá gegnir lögreglan ekki síður mikilvægu hlutverki á sviði neyðarþjónustu vegna slysa og náttúruhamfara og er ein af grunnstoðum í almannavörnum, eins og fjölmörg dæmi sanna á undanförnum árum á því sviði.

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi grunnhlutverks lögreglunnar, sem er að tryggja öryggi borgaranna, koma í veg fyrir afbrot og rannsaka þau, né um þjónustu-, aðstoðar- og hjálparhlutverk hennar auk samstarfshlutverks hennar á fjölmörgum sviðum.

Síðustu áratugi hafa orðið margvíslegar breytingar í samfélaginu. Skipuleg glæpastarfsemi sem ekki virðir nein landamæri, aukið aðgengi og samskipti á netinu og stórauknir fólksflutningar landa á milli hafa haft í för með sér að störf lögreglu almennt eru orðin erfiðari og margslungnari en fyrr. Samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem kynnt var í október er varað við fyrirsjáanlegri þróun í skipulagðri glæpastarfsemi, þar á meðal í alþjóðlegri glæpastarfsemi sem hingað teygir anga sína, fíkniefnasölu, mansali, vændi o.fl. Af hálfu greiningardeildarinnar er talið að framhald verði á þeirri þróun og í reynd sé um viðvarandi ástand að ræða. Þá hefur hún undanfarin ár varað við aukinni hættu á voðaverkum einstaklinga. Ljóst er að á engan hátt er hægt að útiloka að á Íslandi verði framin hryðjuverk eða aðrir stórfelldir ofbeldisglæpir. Hryðjuverk og önnur illvirki hafa á umliðnum árum tekið á sig sífellt grimmdarlegri mynd. Hér mætti benda á fjölmörg nýleg og nærtæk dæmi um voðaverk sem allir þekkja.

Ekki er því að neita að sá sem hér talar deilir áhuga hæstv. dómsmálaráðherra á eflingu lögreglunnar um allt land. Mikilvægt er að lögreglunni verði gert kleift að skipuleggja störf sín á grundvelli kerfisbundinnar greiningar og þróun mála hérlendis og erlendis þar sem reynt er að nálgast brot og önnur löggæsluvandamál með það fyrir augum að fyrirbyggja þau. Loks verður að hafa í huga að ógnir eru ekki eingöngu fyrirséðar. Lögreglan verður einnig að vera það öflug að hún geti tekist á við óþekktar ógnir sem geta komið upp fyrirvaralaust. Lögreglan þarf því að vera nægilega öflug á sviði öryggismála og svo sveigjanleg að hún hafi burði til að bregðast við hættum sem gera ekki boð á undan sér.

Samkvæmt skýrslu sem skilað var til innanríkisráðherra 13. mars 2013 og lögð var til kynningar á Alþingi vantaði á þeim tíma 236 lögreglumenn í lögreglulið landsins. Byggðist skýrslan á vinnu nefndar sem skipuð var á grundvelli þingsályktunar frá Alþingi 2012. Grundvallarniðurstaða nefndarinnar var að stórefla þyrfti lögregluna. Varðandi fjölda lögreglumanna voru lögreglumenn árið 2007 (Forseti hringir.) 712, en það var talið að þyrfti að fjölga þeim um ríflega 200. Staðan í dag (Forseti hringir.) er þannig að þeim hefur fjölgað kannski um 30 frá því sem þá var.