148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:59]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni prýðilega ræðu. Þar talaði maður af þekkingu á mörgum sviðum enda verið bæði sýslumaður og lögreglustjóri í dreifbýlu samfélagi úti á landi um árabil. Ég veit að ég sem samgönguráðherra mun eiga góðan liðsmann í honum eins og öðrum þingmönnum kjördæmanna við að efla samgöngur í kjördæmunum. Þar sem við erum báðir í Suðurkjördæmi þá langar mig kannski að nefna að það hefur auðvitað ýmislegt jákvætt verið að gerast í samgöngumálum og margt sem horfir til betri vegar strax á næsta ári 2018. Það verður langþráð að fá nýjan Herjólf til að sigla á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja og vonandi skip sem hentar vel til þeirra siglinga og uppfyllir þarfir Vestmannaeyinga sem og annarra sem þurfa að sækja Eyjarnar heim, vilja sækja þær heim. Ég veit að þeir eru fjölmargir, jafnvel enn fleiri heldur en í hafa komist.

Hv. þingmaður nefndi einbreiðu brýrnar. Það er gleðilegt að þau auknu fjárráð sem þó hafa komið á liðnum árum og á árinu í ár og með því sem fjárlaganefnd og ríkisstjórnin var að bæta í á þessu ári verða rúmir 2 milljarðar og þá erum við komin með tæki til þess að gera mun meira. Sá sem hér stendur skal viðurkenna það allra manna fyrstur að það þarf miklu meira til þess að fara í stórfellda uppbyggingu á samgöngum hringinn í kringum landið. Á næsta ári mun þó til að mynda fækka tveimur einbreiðum brúm með auknu fjárframlagi frá Alþingi ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt. Um leið og við gleðjumst yfir þessum smáu skrefum þá gerum við okkur grein fyrir því að það þarf að gera mun stærri hluti til þess að það verði (Forseti hringir.) ásættanlegt. Vonandi munum við á þessu kjörtímabili geta gert ýmislegt.