148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir. Ég hef sama áhuga og hann á vegamálum. Það er alveg ljóst, hæstv. samgönguráðherra, að vegirnir á landinu öllu eru langt á eftir þeirri umferð sem hér hefur verið undanfarin ár og hefur vaxið sífellt á hverju ári. Það þarf að gefa virkilega vel í, við vitum það. Ég á von á því að við eigum gott samstarf um þetta.

Auðvitað fagna ég því ef einbreiðum brúm á að fækka um tvær á næsta ári, en þær eru 18 eða 19, þannig að það er langur vegur að það takist að klára þetta verkefni, fyrir utan öll hin verkefnin sem ég nefndi.

Ráðherra nefndi Herjólf. Það er að koma nýr Herjólfur á næsta ári, en ég skora líka á ráðherra að taka með mér þann slag að það verði farið í að rannsaka höfnina, Landeyjahöfn, og komast að því hvað þurfi að gera til þess að sé hægt að sigla þar inn. Þetta skip mun ekki sigla mikið oftar þar inn en gerist í núverandi ástandi þótt það risti örlítið minna en fyrra skip, það er alveg ljóst. Það vita allir Vestmannaeyingar. Það þarf að laga höfnina og fá góða sérfræðinga til að fara yfir hvað beri að gera, hvað sé best að gera til þess að það sé hægt að nota hana sem heilsárshöfn. Og það þarf auðvitað líka að vera annað skip til reiðu þegar þetta nýja skip kemur til að sigla til Þorlákshafnar ef höfnin lokast. Þarna er sandur í austur, vestur, norður, suður og niður. Hann er fljótur að koma og loka þessari höfn.