148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:19]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið áðan. Þegar kemur að fátækt er gríðarlega mikilvægt að ríkisstjórnin ætlar að fara í vinnu strax á nýju ári sem snýr að fátækt í samfélaginu, fara yfir og skipuleggja til hvaða aðgerða eigi að grípa. Þegar kemur að fátækt barna vil ég byrja á að segja að það er fagnaðarefni að hún skuli almennt vera minni á Íslandi en í nágrannalöndunum okkar. Engu að síður eru of mörg börn sem búa hér við fátækt. Ég held að það séu um 7% barna á aldrinum 0–17 ára sem búa við efnislegan skort. Það er ólíðandi. Þar þarf að grípa til aðgerða.

Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni að þetta tengist inn í húsnæðismálin og inn í aðgerðir gagnvart örorkulífeyrisþegum og inn í barnabótakerfið. Við þurfum að fara í alla þá þætti og gera það skipulega. Það er eitt af megináherslumálum þess sem hér stendur, sérstaklega hvað varðar fátækt barna. Ég er sannfærður um að þegar við ráðumst að rótum þess vanda ráðumst við líka að fátækt foreldra þessara barna, rétt eins og hv. þingmaður kom inn á.

Þessi ríkisstjórn hefur starfað í rétt um 20 daga. Það er mikilvægt að aðgerðir séu heilsteyptar og tekið sé á málum heildstætt. Það er fullur vilji þess sem hér stendur að leggja allan þann kraft sem mögulegt er í að móta aðgerðir. Ég vonast til þess að eiga mjög gott samstarf við hv. velferðarnefnd í þeirri vinnu sem fram undan er.

Varðandi þá kærunefnd sem hv. þingmaður kom inn á vil ég segja í fullri hreinskilni að það er eitthvað sem sá sem hér stendur þyrfti að kynna sér betur. Ég er hins vegar sannfærður um að það þarf ekki slíka kærunefnd til að ná fram pólitískum vilja félags- og jafnréttismálaráðherra til að beita sér í þessum málaflokki. (Forseti hringir.) Hann er til staðar hvort sem þingsályktunartillaga hv. þingmanns verður samþykkt eða ekki.