148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans. Hann beindi til mín sérstakri fyrirspurn hvað varðar staðsetningu Landspítala við Hringbraut. Þar sem hv. þingmanni varð tíðrætt um þá ágætu líkingu að hljóð og mynd ættu að fara saman, sem ég kunni vel að meta, hlýt ég að rifja upp að árið 2015 gerði þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, úttekt á staðarvalinu, m.a. vegna þess að þá hafði töluverð umræða farið fram um staðarval Landspítala við Hringbraut. Það var í ríkisstjórn þáverandi hæstv. forsætisráðherra, hv. formanns Miðflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem sú úttekt var gerð. Þar var farið yfir staðarvalið. Niðurstaða þeirrar úttektar var sú að best væri að reisa spítalann við Hringbraut og þar af leiðandi greiddu allir þingmenn á þessum tíma atkvæði með þingsályktunartillögu um að sjúkrahúsið skyldi rísa þar. Það var eftir að hér höfðu átt sér stað töluverðar umræður um staðarvalið. Hv. þingmaður kallar eftir að sú umræða verði tekin aftur. Þeirri umræðu tók ég fyrst þátt í 2007 þegar ég var fyrst kosin á þing. Við erum búin að nota töluverðan tíma í að ræða staðarvalið og ég taldi satt að segja þegar einróma samstaða náðist á þinginu að við værum lent eftir alla þessa umræðu. Ég vitna til þeirrar úttektar fyrst hv. þingmaður spurði mig sérstaklega.